Hoppa yfir valmynd
31. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Góðar forsendur til að rækta nýja vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti erindi á fundi Viðskiptaráðs og VÍB um samkeppnishæfni Íslands 2016. - mynd
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti í dag erindi á fundi VÍB og Viðskiptaráðs Íslands um samkeppnishæfni Íslands árið 2016 og sagði hún meðal annars að hér væru góðar forsendur til að rækta nýja vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi.

Á fundinum voru kynntar niðurstöður alþjóðlegrar úttektar á samkeppnishæfni Íslands og var þema fundarins höfuðborgarsvæðið og áhrif þess á samkeppnishæfni landsins, þ.e. hversu vel gengur að laða hingað til lands erlenda sérfræðinga, alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestingu.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti helstu niðurstöður IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni þjóða og má sjá hana á vef Viðskiptaráðs. Kom meðal annars fram í erindi hans að Ísland hefur þokast upp um eitt sæti á listanum og er núna í því 23. en önnur Norðurlönd eru talsvert ofar á listanum. Ísland hefur bætt sig í efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera og atvinnulífs en hvað varðar samfélagslega innviði stendur Ísland lakar en fyrri ár, það skýrist helst af tæknilegum innviðum, þ.e. skorti á tæknimenntuðu fólki. Þá kom fram að hagvísar sem snúa að höfuðborginni og sveitarfélögum gefa til kynna að landið hafi sterka stöðu þegar kemur að orku og vatni en árangur grunnskólastigsins er lakur, atvinnustefna borgarinnar gæti verið sterkari og veikleika væri að finna í leiguverði íbúða ásamt fasteignasköttum

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra flutti ávarp á fundinum og auk innanríkisráðherra flutti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri erindi.

Innanríkisráðherra sagði í upphafi erindis síns að tækifæri væru víða og rík ástæða væri til bjartsýni. Styrkleikar samfélagsins væru margir, mannauður mikill, landið væri ríkt af auðlindum og góðar forsendur fyrir hagsæld. Leiðin til hagsældar væri þó ekki tímabundið átaksverkefni heldur þyrfti langtímasýn, aga og þolinmæði.

Ráðherra sagði helstu stoðir atvinnulífs á Íslandi vera sjávarútveg, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu. Síðan sagði ráðherra: ,,Þær atvinnugreinar sem við köllum hefðbundnar, búa við takmarkaðar auðlindir. Nú er að verða til fjórða stoðin, hugverkaþróun. Í hvers kyns hugverkaþróun erum við ekki háð sömu náttúrulegu takmörkunum og í öðrum grunnstoðum okkar. Auðlindin er þannig annars eðlis, hún byggir á getu einstaklinga til nýsköpunar. Þar getur hver og einn nýtt sína þekkingu, menntun eða áhugamál til að búa til hvers kyns verðmæti.“

Ólöf Nordal sagði að höfuðborgin væri ákveðinn máttarstólpi íslensks efnahagslífs og full ástæða til að fjalla um samkeppnishæfni hennar og minnti um leið á að samkeppnishæfni Íslands væri háð því að öll landsvæði séu sem sterkust – þau nýti sem best styrkleika sína og þau styrki hvert annað. Þar gegni höfuðborgarsvæðið lykilhlutverki. Hún sagði sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bera mikla ábyrgð á að tryggja samkeppnishæfni svæðisins og til að árangur næðist þurfi margir að koma að, þar á meðal atvinnulífið, háskólasamfélagið og ríkið og sagði síðan: ,,Í nálægðinni við mennta- og vísindastofnanir eru góðar forsendur til að rækta nýja vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi með nýsköpun og þróun. Stjórnvöld hafa mörg tól í sinni kistu til að stuðla að því. Fyrst má nefna að stjórnvöld eiga að tryggja frelsi til athafna og forsendur samkeppni. Í öðru lagi þurfa þær leikreglur sem nauðsynlegar eru að vera skýrar. Þá þurfa innviðir að vera sterkir, s.s. samgöngur – af öllu tagi – greiðar og fjarskipti örugg og góð. Síðast en ekki síst er rétt að nefna að stjórnsýslan þarf að vera skilvirk og upplýsingar greiðar. Þetta eru allt skilyrði þess að hvert svæði á landinu geti nýtt sem best þá styrkleika sem það hefur.“

Þörf á sérhæfðu erlendu starfsfólki

Ólöf sagði aðgang að sérfræðiþekkingu vera eina forsendu nýsköpunar, Hana gætum við byggt upp með sterku menntakerfi en að við vitum öll að við getum ekki bætt samkeppnishæfni okkar eins og við viljum nema að fá til okkar erlenda sérfræðinga. Sérhvert samfélag sem vinnur að bættri samkeppnishæfni þurfi að leggja höfuðáherslu á að hafa úrval sérfræðinga. Um þá er alþjóðleg samkeppni, bæði þá sem við menntum sjálf og þá sem við viljum fá hingað til lengri eða skemmri tíma. Nú liggi fyrir þinginu frumvarp um útlendinga þar sem ýmis framfaraskref er að finna sem hugsuð er til þess að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga.

 

Frá fundi um samkeppnishæfni Íslands 2016.

Ráðherra sagði fjölda fyrirtækja á Íslandi hafa þörf fyrir aðgengi að sérhæfðu erlendu starfsfólki og nefndi sem dæmi ýmsar nýjar atvinnugreinar eins og hátækni, líftækni, gagnaver, ferðaþjónustu, kvikmyndaiðnað, hönnun og fleira. Því þyrfti að laða til landsins erlenda sérfræðinga sem miðla þekkingu til starfsmanna fyrirtækja og bætir þannig stöðu þeirra. Þessi gátt til landsins yrði að vera opin og regluverkið ekki vera of flókið. Þetta eigi fyrst og fremst við um einstaklinga frá þriðju ríkjum, það er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Lokaorð ráðherra voru þessi: ,,Ef við horfum til mikilvægis erlendra sérfræðinga til að auðga þekkingu og nýsköpun hér á landi þurfum við að huga að því að við erum í samkeppni við önnur lönd um fólk. Það þýðir að við þurfum að vera betri en aðrir – vera frumlegri en aðrir. Við erum þjóð langt í norðri, það vekur forvitni en það getur líka hrint fólki frá. Okkar svar hlýtur alltaf að vera það að bjóða upp á ákveðna sérstöðu sem lega landsins gefur okkur um leið og við þurfum að vera leiðandi í því hvernig við búum um fólkið og fjölskyldur þess í skólum og menntakerfi þegar hingað er komið. Það er ögrun og spennandi verkefni inn í framtíðina.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir hagnýting allra máli, hvort sem það eru auðlindirnar, mannauðurinn eða annað – allir í framleiðnikeðjunni þurfa að keppast við að skila sem bestu fyrir samfélagið allt.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum