Hoppa yfir valmynd
1. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr skólameistari Borgarholtsskóla

Ólöf Nordal innanríkisráðherra og settur mennta- og menningarmálaráðherra við skipan skólameistara Borgarholtsskóla, hefur skipað Ársæl Guðmundsson skólameistara skólans.

Staðan var auglýst í janúar 2016 og bárust 10 umsóknir, frá þremur konum og sjö körlum. Ólöf Nordal innanríkisráðherra var sett mennta- og menningarmálaráðherra við skipan skólameistara Borgarholtsskóla því meðal umsækjenda var einn starfsmaður mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Ársæll Guðmundsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1982, kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1986 og stundaði síðan nám í uppeldisfræðum við háskólann í Lundi og lauk þaðan meistaraprófi 1994. Þá hefur hann lokið námi til doktorsprófs í menntunarfræðum við háskólann í Lundi en doktorsvörn hefur ekki farið fram og árið 2013 lauk hann diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Ársæll var grunnskólakennari á Blönduósi árin 1992 til 1994, aðstoðarskólameistari og um tíma settur skólameistari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árin 1994 til 2002, var sveitarstjóri og hafnarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar árin 2002 til 2006 og skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar 2006 til 2010 og í framhaldi af því skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði. Síðan var hann verkefnisstjóri við ritun Hvítbótar um umbætur í menntun og frá 1. ágúst 2015 verkefnisstjóri á skrifstofu mennta- og vísindamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum