Hoppa yfir valmynd
7. júní 2016 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra leiðir viðskiptasendinefnd til Georgíu

Georgia ráðherrar - mynd
Í kvöld lýkur tveggja daga heimsókn Ragnheiðar Elínar Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, til Tbilisi í Georgíu, þar sem ráðherra hefur farið fyrir viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja og fundað með ráðamönnum í Georgíu. 

Í gær átti Ragnheiður Elín fund með Dimitry Kumsishvili, ráðherra efnahagsmála og sjálfbærrar þróunur, sem jafnframt er varaforsætisráðherra Georgíu. Á fundinum voru einnig tveir aðstoðarráðherrar efnahagsmála og sjálfbærrar þróunar, Ketevan Bochorishvili og Genadi Arveladze, sem fara að stórum hluta til með sömu málaflokka og heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, t.d. ferðamál, nýsköpun, kvikmyndaendurgreiðslur og fleira. 

Á fundinum ræddu ráðherrarnir um samskipti landanna og möguleika á frekari samstarfi þeirra á ýmsum málasviðum, svo sem varðandi orkumál, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Skrifað verður undir fríverslunarsamning EFTA ríkjanna við Georgíu síðar í mánuðinum og voru ráðherrarnir sammála um að í samningnum felist tækifæri til að auka samstarf og viðskipti á milli landanna. 

Þá opnaði ráðherra nýja skrifstofu Landsvirkjunar Power og Verkís í Tblisi, en fyrirtækin hafa unnið saman að vatnsaflsverkefnum í Georgíu um nokkurra ára skeið. 

Ráðherra heimsótti einnig nýjan og glæsilegan visinda- og tæknigarð þar sem nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki vinna í samstarfi opinberra aðila að spennandi nýsköpunarverkefnum.

Fyrr í dag heimsótti Ragnheiður Elín skrifstofu íslenska fyrirtækisins Creditinfo í Tblisi en fyrirtækið er með starfsemi í yfir 20 löndum og hefur áform um frekari þróun þeirrar starfsemi.

Síðdegis ávarpaði ráðherra ráðstefnu um sjálfbæra orkunýtingu Íslands og möguleika á frekara samstarfi við Georgíu í þeim efnum. Ráðstefnan var skipulögð af Íslandsstofu og voru erindi flutt af sérfræðingum frá báðum löndum. 

Markmið heimsóknarinnar er að kynna íslensk fyrirtæki  á sviði orkunýtingar og fleiri greina og með í för eru fulltrúar frá Íslandsstofu, Landsvirkjun Power, Verkís, HB Granda og Loftleiðum.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum