Hoppa yfir valmynd
9. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingsályktunartillaga um fjölskyldustefnu lögð fram á Alþingi

Börn að leik
Börn að leik

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017 – 2021, með áherslu á börn og barnafjölskyldur . Meginmarkmið er að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálinn), verði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir það stóran áfanga að þetta viðamikla stefnuskjal sé nú tilbúið og opinbert: „Að baki liggur vönduð og vel ígrunduð vinna með skýrum tillögum um aðgerðir til að efla velferð barna og styrkja stöðu barnafjölskyldna.“

Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi árið 2013 og endurspeglast í stefnunni grunngildi hans um réttindi barna til verndar, umönnunar og þátttöku. Er horft til þess að þannig megi auka velferð barnafjölskyldna og leitast við að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á sviði fjölskyldu og mannréttinda.

Ráðherra skipaði verkefnisstjórn í september 2013 sem falið var að móta fjölskyldustefnu með áherslu á börn og barnafjölskyldur, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Guðrún Valdimarsdóttir, hagfræðingur var skipuð formaður hópsins en auk hennar var verkefnisstjórnin skipuð fulltrúum frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Sambandi íslenskra í verkefnisstjórninni auk fulltrúa velferðarráðuneytisins.

Í erindisbréfi kom fram að stefna skuli að því að tryggja félagslegan jöfnuð, að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað. Leitað skuli leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar og öryggi í húsnæðismálum. Unnið verði að því að tryggja jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Leggja þurfi áherslu á að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og vernd og stuðning vegna ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Undirmarkmið þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu eru eftirfarandi;

1. að tryggja afkomu barna,

2. að fjölskyldulöggjöf tryggi hagsmuni barna,

3. að efla forvarnir og fræðslu fyrir fjölskyldur,

4. að tryggja að öll börn eigi kost á að taka þátt í skipulögðu frístundastarfi,

5. að auka stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs,

6. að tryggja velferð barna.

Tillögunni fylgir framkvæmdaáætlun sem snýr að sex málefnasviðum og innan hvers þeirra eru tilgreindar aðgerðir með skilgreindum tímasettum markmiðum, kostnaðargreiningu og árangursmælikvörðum.

Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum