Hoppa yfir valmynd
14. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjármálalæsi er kennt í flestum skólum landsins

Niðurstöður könnunar um stöðu kennslu í fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum liggja fyrir

Í júní 2011 var skipaður stýrihópur um 3 ára tilraunaverkefni til að efla fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Í hópnum sátu fulltrúar Námsgagnastofnunar (nú Menntamálastofnun), Samtaka fjármálafyrirtækja, Heimilis og skóla, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtakanna og Landssamtaka lífeyrissjóða. Í erindisbréfi hópsins kemur eftirfarandi fram um markmið hans: ,,Stýrihópurinn hafi það markmið að efla þessa fræðslu í skólakerfinu með hliðsjón af gildandi lögum og aðalnámskrám í samráði við ýmsa aðila. Hópurinn skoði m.a. möguleika á því að ráða verkefnastjóra sem tæki að sér að fylgja verkefninu eftir í skólakerfinu og að velja nokkra tilraunaskóla sem taki að sér þróunarverkefni á sviði fjármálafræðslu." Gerður var samningur milli ráðuneytisins og Samtaka fjármálafyrirtækja um vinnu og fjármögnun verkefnisins um að efla kennslu í fjármálalæsi í skólum m.a. með því að velja tilraunaskóla sem tóku að sér þróunarverkefni sviði fjármálalæsis og stýrihópurinn skilgreindur sem ábyrgðaraðili. Stýrihópurinn skilaði lokaskýrslu í júní 2014.

Í kjölfar skýrslu stýrihóps ákvað ráðuneytið m.a. að láta gera könnun meðal allra grunn- og framhaldsskóla um fjármálalæsi. Markmiðið með könnuninni var að kanna stöðu fjármálafræðslu hjá öllum grunn- og framhaldsskólum, með hvaða hætti skólar vinna að hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla á sviði fjármálafræðslu og hvaða námsgögn eru notuð við kennsluna. Sérstaklega var spurt um tilraunaverkefni stýrihóps um fjármálalæsi á árunum 2012-2014 og hvernig þátttakendur meti ávinning af verkefninu. Var Stofnun um fjármálalæsi falin framkvæmd könnunarinnar sem gerð var á vorönn 2016.

Könnunin var send til 177 grunnskóla og 34 framhaldsskóla. Alls bárust 219 svör frá 142 skólum; 110 af 177 grunnskólum (62%) og 29 af 34 framhaldsskólum (85%). Jafnhliða voru tekin símaviðtöl við þá skóla sem tekið höfðu þátt í tilraunaverkefni um fjármálalæsi 2012-2014.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að fjármálalæsi er kennt í flestum skólum eins og aðalnámskrár gera ráð fyrir eða í 87% grunnskóla og 90% framhaldsskóla og oftast sem hluti af öðru námssviði en ekki sérstök námsgrein. Í grunnskólum er algengast að fjármálalæsi sé kennt sem hluti af stærðfræði en í framhaldsskólum er algengast að fjármálalæsi sé hluti af lífsleikni. Þá er langalgengast að kennarar útbúi námsefni sjálfir, en ein helsta hindrunin í vegi fyrir kennslu í fjármálalæsi er talin vera skortur á námsefni. Nemendur grunn- og framhaldsskóla fá að jafnaði 11 kennslustundir í fjármálalæsi á yfirstandandi skólaári. Kennarar allra skólastiga telja að hvorki gangi vel né illa að upfylla kröfur aðalnámskráa um hæfniviðmið. Námsárangur í fjármálalæsi er sjaldnast metinn sérstaklega á grunnskólastigi, en það er gert í meirihluta tilvika á framhaldsskólastigi. Rúmur þriðjungur svarenda kemur á framfæri atugasemdum eða tillögum til úrbóta um kennslu í fjármálalæsi sem flokka má í þrjá meginflokka: ákall um frekara námsefni, rýmri kennslutíma og athugasemdir er varða stefnumótun. Meðal annars er kallað eftir samráðsvettvangi um kennslu í fjármálalæsi og nokkurs konar vísindagarði þangað sem sækja megi skemmtun og fræðslu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun fara yfir þær tillögur til úrbóta sem settar eru fram í skýrslunni og leggja til frekari viðbrögð við niðurstöðum könnunarinnar.

Ráðuneytið þakkar öllum sem þátt tóku í könnuninni fyrir góða samvinnu.

Skýrsla um fjármálalæsi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum