Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 6/2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 1. júní 2016 í máli nr. 6/2016.
Fasteign: Ölver [ ], Hvalfjarðarsveit, fnr. [ ].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2016, 1. júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 6/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 15. janúar 2016, kærði Ívar Pálsson hrl. fyrir hönd A, kt. […], og B, kt. […], álagningu fasteignaskatta vegna Ölvers […], Hvalfjarðarsveit, fnr. […].

Með tölvubréfi, dags. 21. janúar 2016, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir frekari gögnum frá kærendum. Umbeðin gögn bárust þann 29. janúar 2016.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfi, dags. 8. febrúar 2016, eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 4. mars 2016.

Hinn 8. mars 2016 var umrædd umsögn send kærendum og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Með bréfi, dags. 23. mars 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kærenda. Þær athugasemdir voru sendar sveitarfélaginu sem gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 14. apríl 2016. Umræddar athugasemdir voru kynntar kærendum. Málið var tekið til úrskurðar 6. maí 2016.

Málavextir
Kærendur gerðu samning við Viator Summerhouses Gmbh. þann 13. ágúst 2014 um framleigu á sumarhúsi sínu að Ölveri […], Hvalfjarðarsveit, til erlendra ferðamanna á tímabilinu 15. júní 2015 til og með 15. september 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var sumarhúsið leigt til erlendra ferðamanna í alls 35 daga á fyrrgreindu leigutímabili.

Þann 7. júlí 2015 sendi Hvalfjarðarsveit kærendum bréf þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði í hyggju að breyta gjaldflokkun á fasteign hans að Ölveri […], Hvalfjarðarsveit, m.t.t. álagningar fasteignaskatts fyrir árið 2015, þannig að fasteignin yrði frá og með 15. júlí 2015 flokkuð sem eign samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en ekki samkvæmt a-lið sömu lagagreinar eins og áður hafði verið. Vísaði sveitarfélagið til þess að fasteignin væri nýtt í ferðaþjónustu. Var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri við sveitarfélagið skriflegum andmælum við fyrirhugaða ákvörðun sveitarfélagsins um breytta flokkun fasteignarinnar.

Kærendur mótmæltu fyrirhugaðri breytingu með bréfi, dags. 23. júlí 2015. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2015, tilkynnti sveitarfélagið að andmæli kærenda gæfu ekki tilefni til að sveitarfélagið endurskoðaði fyrri ákvörðun sína um að flokka fasteign kærenda að Ölveri […] samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.    

Með bréfi, dags. 31. júlí 2015, andmælti Viator Summerhouses Gmbh. fyrrgreindri ákvörðun sveitarfélagsins fyrir hönd viðskiptavina sinna og óskaði eftir því að ákvörðun um breyttar álagningarforsendur sumarhússins yrði frestað þar til félaginu hefði gefist tækifæri til að fara yfir málið með kæranda og sveitarfélaginu og gera grein fyrir samningum félagsins um útleigu eignarinnar.

Þann 11. ágúst 2015 áttu forsvarsmenn Viator Summerhouses Gmbh. fund með fulltrúum Hvalfjarðarsveitar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins. Í kjölfarið eða hinn 14. ágúst 2015 andmælti lögmaður kærenda fyrirhugaðri breytingu. Af hálfu sveitarfélagsins var hins vegar ákveðið að standa við fyrirhugaða breytingu og var álagningu fasteignaskatts breytt í samræmi við ákvörðun sveitarfélagsins.

Kærendur óskuðu þá hinn 15. september 2015 eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni. Með bréfi dags. 12. október 2015, barst kærendum rökstuðningur sveitarfélagsins.

Kærendur vilja ekki una framangreindri ákvörðun og hafa því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.   

Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þá kröfu að endurálagning Hvalfjarðarsveitar á fasteignagjöldum vegna sumarhúss þeirra að Ölveri […], fnr. […], frá því í ágúst 2015, verði felld úr gildi og sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kærendum ofgreidd fasteignagjöld.  

Kærendur byggja á því að útleiga sumarhússins falli ekki undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt a-lið sömu greinar falli sumarbústaðir undir þann staflið en c-liður taki til allra annarra fasteigna sem ekki falli undir a- eða b-lið. Eignir sem taldar séu upp í a- og b-lið geti því ekki fallið undir c-liðinn jafnvel þó litið væri svo á að þær væru „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Ákvæðið beri að skýra samkvæmt orðanna hljóðan og ríkar kröfur beri að gera til skýrleika skattlagningarheimilda og allur vafi þar um eigi að vera skýrður kærendum í vil. Þá sé einnig til þess að líta að um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun. 

Einnig mótmæla kærendur því að sumarhús þeirra sé nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Hús þeirra sé eingöngu í skammtímaleigu, einkum á tímabilinu júní til ágúst. Húsið sé að langmestu leyti nýtt sem sumarhús af kærendum sjálfum og í raun nýtt þannig þó í þeim dvelji aðrir en eigendur þess. Þá sé engin þjónusta veitt í sumarhúsinu og kærendur teljast ekki vera rekstraraðilar eða með atvinnustarfsemi í skilningi laga. Sumarhúsið geti því ekki verið atvinnuhúsnæði.

Til frekari rökstuðnings fyrir kærunni vísa kærendur til minnisblaðs Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. apríl 2015. Telja kærendur að ákvörðun Hvalfjarðarsveitar byggist á fyrrgreindu minnisblaði en þar er fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í frumvarpinu hafi verið lagðar til breytingar á fyrrgreindum lögum hvað varði öflun rekstrarleyfis vegna heimagistingar. Þar hafi meðal annars verið lagt til að leiga í skamman tíma ár hvert verði ekki leyfisskyld. Þá komi fram í téðu minnisblaði að ef umrætt lagafrumvarp yrði samþykkt, megi í ljósi þess að gert sé ráð fyrir mjög skömmum tíma til útleigu án leyfisskyldu og lögaðilar hafi ekki möguleika að því að stunda starfsemi með þeim hætti, megi líta svo á að ekki hafi skapast tilefni til þess að breyta álagningu á það húsnæði sem um ræðir meðan þessi nýting varir. Kærendur telja að fyrrgreindur skilningur eigi við um skammtímaleigu líkt og í þeirra tilviki. Samband íslenskra sveitarfélaga hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu lögmætar forsendur til að breyta skráningu húsnæðis í c-flokk vegna álagningar fasteignaskatts í tilvikum sem þessum. Engar  forsendur séu til að breyta skráningu sumarhússins þar sem tími útleigu hússins sé skammur og að ekki sé um lögaðila að ræða.

Verði ekki fallist á fyrrgreind sjónarmið telja kærendur augljóst að álagningu fasteignagjalda verði ekki breytt nema í mesta lagi fyrir þann hluta úr ári sem húsið hafi sannanlega verið leigt út, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015. Telja kærendur að málsatvik og forsendur í því máli séu nokkuð sambærileg við það mál sem hér um ræðir. Þar hafi yfirfasteignamatsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að flokka íbúð í notkun fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, allt árið, sem hafi verið leigð út að jafnaði frá júní til ágúst. Um þetta vísa kærendur til 6. gr. laga nr. 4/1995 og 8. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt. Telja kærendur með vísan til þessara ákvæða að ólögmætt sé að leggja fasteignagjöld á sumarhúsið sem atvinnuhúsnæði í lengri tíma en það er notað sem slíkt, verði á annað borð talið að sumarhúsið hafi verið notað sem atvinnuhúsnæði.

Þá byggja kærendur á því að endurálagningin hafi verið ólögmæt þar sem fasteignagjöld hafi að mestu verið greidd fyrir árið 2015 þegar endurálagningin átti sér stað en greitt hafði verið fyrir alla mánuði ársins utan tvo síðustu. Sumarhúsið hafi hvorki verið leigt út í nóvember né desember og því hafi verið ólögmætt að endurákvarða gjöldin þá mánuði. Þá hafi verið ólögmætt að breyta álagningu þeirra mánaða sem þegar hafði verið greitt hafði verið fyrir, þ.e. frá janúar til september 2015. Slík afturvirk skattlagning sé ólögmæt þar sem hún fari í bága við 77. gr. stjórnarskrár lýðveldsins Íslands nr. 33/1944 og 72. gr. sömu laga um vernd eignaréttar.

Auk þess telja kærendur að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi ekki verið lögmæt og leiði það jafnframt til þess að álagningin hafi verið ólögmæt. Sveitarfélaginu hafi borið að kalla eftir skýringum kærenda og jafnvel Viator Summerhouses Gmbh. áður en það boðaði hina breyttu álagningu. Í kjölfar þess hafi sveitarfélaginu síðan borið að skoða hvort að forsendur hafi verið til að breyta álagningunni. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi því verið óvönduð og brotið gegn andmæla- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar. 

Þá telja kærendur að endurálagningin stangist á við lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Útleiga sumarhúsa með þeim hætti sem hér um ræðir hafi lengi tíðkast án þess að húsin hafi verið skattlögð sem atvinnuhúsnæði. Þannig megi segja að það hafi skapast venjuhelguð framkvæmd sem ekki verði breytt afturvirkt eða án viðvörunnar eða tilkynningar þar um. Í ljósi þess hafi sveitarfélaginu borið að auglýsa hina breyttu framkvæmd fyrirfram en slík fyrirvaralaus breyting á framkvæmd án viðvörunnar stangist á við lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og 77. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni skattalaga.

Sjónarmið Hvalfjarðarsveitar
Í umsögn Hvalfjarðarsveitar, dags. 4. mars 2016, er rakin forsaga málsins og tekið fram að ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið reist á skýrri heimild til að innheimta fasteignagjöld af mannvirkjum í samræmi við nýtingu þeirra, en ekki á minnisblaði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. apríl 2015, líkt og kærendur hafi haldið fram. Sveitarfélagið telur með hliðsjón af úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar nr. 4/2013 og 4/2015 að heimilt sé að flokka sumarhús í útleigu samkvæmt c-lið og því skuli greiða af henni fasteignagjöld í samræmi við það.

Þá telur sveitarfélagið að rök þess efnis að sumarbústaður kærenda geti samkvæmt orðanna hljóðan ekki fallið undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna orðalags a-liðar sömu greinar standist ekki þegar litið sé til þess sem fram hafi komið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 144/2000 um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þar hafi vilja löggjafans verið lýst með skýrum hætti hvað varði „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 144/2000 komi fram að ákvæði 3. gr. frumvarpsins, og þar með núgildandi c-liður 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sé ætlað að skýra hvaða mannvirki sæti hærri álagningarprósentu en þau mannvirki sem falla undir undantekningarákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. og séu þar meðal annars talin upp sumarhús tengd ferðaþjónustu. Þá sé einnig í því sambandi vísað til álits samkeppnisráðs frá 8. júlí 1995, í máli nr. 8/1998.

Af hálfu sveitarfélagsins er talið að framangreint beri skýrt vitni um þann vilja löggjafans að sumarhús sem rekin séu í hagnaðarskyni sem mannvirki í ferðaþjónustu eigi ekki að falla undir undantekningarákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 heldur skuli skattleggja þau samkvæmt c-lið sömu greinar. Þá telur sveitarfélagið að túlkun kærenda á lögunum gangi þvert gegn vilja löggjafans sem og gegn túlkun yfirfasteignamatsnefndar. Kærendur hafi nýtt sumarhús sitt í hagnaðarskyni með því að leigja það út til ferðamanna og því falli sú notkun undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Sveitarfélagið andmælir því að sumarhús kærenda hafi ekki verið notað í ferðaþjónustu í þeim skilningi sem hefðbundið sé að leggja í það orð, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015. Þá vísar sveitarfélagið til þess að bæði í gögnum málsins sem og í kærunni sjálfri komi fram að kærendur hafi leigt sumarhús sitt út til ferðamanna í tiltekinn dagafjölda á árinu 2015 og á slíka útleigu sé ekki hægt að líta öðrum augum en sem gistiþjónustu. Sumarhúsið sé því sannanlega nýtt sem sumarhús af öðrum en eigendum þess. Sú notkun eigi sér stað gegn greiðslu sem breyti eðli notkunar úr hefðbundinni nýtingu sumarhúss í nýtingu sumarhúss sem mannvirkis í ferðaþjónustu, sbr. lög nr. 4/1995. Þá telur sveitarfélagið að líta verði svo á að í sölu á gistingu felist sú þjónusta sem kærendur veita, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Þá hafnar sveitarfélagið þeim rökum að sumarhúsið geti ekki talist vera atvinnuhúsnæði. Sveitarfélagið bendir á að það sé lögboðin skylda aðila sem leigja út sumarhús til ferðamanna að sækja um leyfi vegna slíkrar starfsemi, sbr. lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sveitarfélagið vísar til þess að kærendur hafi fengið bréf þess efnis að þeim væri þetta skylt. Þá telur sveitarfélagið það ekki standast að sú ákvörðun kærenda að hunsa framangreind lög og sækja ekki um rekstrarleyfi vegna útleigu hússins, geti leitt til þess að þar með geti sumarhús kærenda ekki talist vera nýtt í ferðaþjónustu. Hvalfjarðarsveit telur að brot kærenda á ákvæðum umræddra laga geti ekki verið gildan rökstuðning fyrir því að þeim beri ekki að greiða af húsinu lögmæt gjöld samkvæmt lögum nr. 4/1995. Þessu til stuðnings vísar sveitarfélagið til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 10/2012 sem og dóms Hæstaréttar í máli nr. 85/2006 þar sem fram komi að raunveruleg notkun fasteignar skuli ráða því undir hvaða staflið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 beri að flokka fasteignir. Þar sem fram komi í gögnum málsins að kærendur nýti sumarhús sitt til útleigu til erlendra ferðamanna telur sveitarfélagið að flokkun sumarhússins hljóti að taka mið af því að um sé að ræða mannvirki sem nýtt er í ferðaþjónustu en ekki hefðbundið sumarhús til einkanota.

Þó að minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga geymi útlistun á því hvernig sambandið telji að flokka beri eignina þá ráði sveitarfélög málum sínum sjálf og séu algjörlega óbundin af tillögum sambandsins, sbr. 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Sambandið sé ekki stjórnvald og hafi því ekki boðvald yfir sveitarfélögunum þó það sé viðurkennt í sveitarstjórnarlögunum sem sameiginlegur málsvari sveitarfélaganna, sbr. 98. gr. sömu laga. Sveitarfélagið telur að það hafi farið að settum lögum við endurflokkun fasteignarinnar í stað þess að líta til umfjöllunar í minnisblaði um ákvæði frumvarps sem hafi ekki enn verið samþykkt þegar hin umþrætta ákvörðun hafi verið tekin.

Þá telur sveitarfélagið að málsatvik í því máli sem hér um ræðir séu ekki sambærileg málsatvikum og forsendum og voru í máli yfirfasteignamatsnefndar nr. 4/2015 þar sem kærendur hafi hvorki rekstrarleyfi til ferðaþjónustu í húsnæðinu né gögn um langtímaleigu sumarhússins. Það sé því ekki hægt að líta til niðurstöðu þessa úrskurðar við úrlausn þessa máls.

Sveitarfélagið vekur athygli á því að samkvæmt gögnum málsins hafi verið ákveðið að endurflokkun sumarhúss kærenda skyldi aðeins ná til tveggja mánaða af árinu 2015 þannig að leiðrétt fasteignagjöld ársins miðast við að sumarhúsið sé flokkað samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í tíu mánuði ársins en samkvæmt c. lið sömu lagagreinar í tvo mánuði. Telur sveitarfélagið að þannig sé við endurálagningu fasteignagjalda vegna sumarhússins miðað við þann tíma sem húsið er til útleigu fyrir ferðamenn. 

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kærendur hafi ekki sótt um tilskilið leyfi og þar með ekki upplýst um það fyrirfram til heilbrigðiseftirlits Vesturlands hvernig skiptingu tímabila útleigu og eigin notkunar sumarhússins yrði háttað fyrir komandi ár hverju sinni. Eigi að vera unnt að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2013.

Sveitarfélagið vísar til þess að lög nr. 4/1995 geri ráð fyrir því að sveitarsjóðsgjöld megi endurákvarða og því er þess vegna mótmælt að um ólögmæta skattlagningu sé að ræða í því tilviki sem hér um ræðir, sbr. 2. mgr. 32. gr. sömu laga. Lögin mæli þannig fyrir um að endurákvörðun geti átt sér stað á miðju álagningartímabili. Jafnframt komi fram í 5. gr. laganna og í 1. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt að fasteignaskattur sé lagður á árlega eða á ársgrundvelli. Lögin geri því ráð fyrir því að fasteignaskattur sé lagður á í upphafi árs en sveitarfélögum sé jafnframt veitt svigrúm til að endurákvarða fasteignaskatt með hliðsjón af breyttri notkun fasteignar. Af hálfu sveitarfélagsins er litið svo á að þar sem gjaldárið 2015 hafi ekki verið liðið þegar endurflokkun fasteignarinnar hafi átt sér stað, og þar með endurákvörðun fasteignagjalda, hafi verið heimilt að leiðrétta fasteignagjöld vegna eignarinnar. Þá sé því sérstaklega mótmælt að endurflokkunin hafi verið vegna nóvember og desember 2015. Hvað varðar þá röksemd kærenda að ólögmætt hafi verið fyrir sveitarfélagið að breyta flokkun sumarhússins vegna þeirra mánaða sem þegar voru liðnir af árinu 2015 telur sveitarfélagið að sú röksemd sé byggð á misskilningi. Fasteignaskattur vegna þeirra mánaða ársins sem þá hafi þegar verið liðnir hafi ekki verið endurákvarðaður heldur hafi endurflokkun sumarhússins verið látin ná til tveggja mánaða af þeim rúmu fimm mánuðum sem hafi verið eftir af árinu þegar ákvörðun um endurflokkun hafi verið tekin.

Þá er því mótmælt að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið ólögmæt. Kærendur hafi fengið senda tilkynningu um fyrirhugaða endurálagningu miðað við 15. júlí 2015 en um leið hafi þeim verið veittur frestur til andmæla til 1. ágúst 2015 en í því hafi falist tækifæri fyrir kærendur að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Kærendur hafi nýtt sér andmælaréttinn með bréfi, dags. 23. júlí 2015. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2015, hafi sveitarfélagið tekið afstöðu til andmælanna og kæranda tilkynnt um að ekki yrði horfið frá fyrri ákvörðun. Sveitarfélagið hafi ákveðið að fresta endanlegri endurákvörðun í ljósi bréfs Viators Summerhouses Gmbh. fyrir hönd viðskiptavina sinna, dags. 31. júlí 2015. Í því bréfi hafi verið óskað eftir fundi vegna málsins og hafi sveitarfélagið fallist á það. Þann 11. ágúst 2015 hafi fulltrúar Viators Summerhouses Gmbh., sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga fundað um málið og það hafi ekki verið fyrr en í framhaldi af þeim fundi sem sveitarfélagið hafi tekið endanlega ákvörðun um að framkvæma téða endurálagningu. Í ljósi þessa telur sveitarfélagið sig hvorki hafa brotið andmæla- né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar. Þá hafi sveitarfélaginu borið að taka ákvörðun í málinu svo fljótt sem unnt væri, sbr. málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarfélagið hafi endurflokkað viðkomandi fasteign með hliðsjón af notkun hennar en ekki breytt álagningu skatts eins og kærendur haldi fram. Þannig hafi álagning fasteignaskatts færst á milli flokka í samræmi við lög, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Hefðu kærendur sótt um rekstrarleyfi vegna sumarhússins eins og þeim hafi borið að gera samkvæmt lögum nr. 85/2007 þá hefði sveitarfélagið þegar verið búið að breyta flokkun eignarinnar í tengslum við þá leyfisveitingu eins og því hefði þá borið skylda til. Ekki sé þannig hægt að leggja þetta mál að jöfnu við mál sem varða endurálagningu tekjuskatts.

Þá hafi sveitarfélagið gætt meðalhófs þegar endurflokkunin hafi aðeins verið látin ná til tveggja mánaða í stað tólf auk þess sem áðurnefndar lagaheimildir fyrir endurflokkuninni séu til marks um það að ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið í samræmi við sett lög og átt sér viðhlítandi lagastoð. Sveitarfélagið telur því að hvorug framangreindra reglna hafi verið brotin. Þá geti kærendur ekki byggt á því að þeir eigi rétt til þess að ólögmætri en venjuhelgaðri framkvæmd verði viðhaldið við flokkun sumarhúsa í útleigu innan sveitarfélagsins. Starfsemi sú sem þeir hafi rekið í sumarhúsinu án tilskilinna leyfa um langa hríð sé ólögmæt og á henni verði því ekki byggður ríkari réttur en lögboðinn réttur sveitarfélagsins til að innheimta fasteignaskatt í samræmi við notkun fasteignarinnar. Kærendum hafi verið í lófa lagið að kynna sér þær reglur sem gilda um útleigu fasteigna til ferðamanna gegn endurgjaldi og hvaða leyfa væri skylt að afla áður en slík starfsemi hæfist.

Sveitarfélagið geri þá kröfu að framkomnum kröfum kærenda verði hafnað og að heimild Hvalfjarðarsveitar til að endurflokka umrætt sumarhús og endurákvarða fasteignaskatta vegna eignarinnar verði staðfest.

Þá telur sveitarfélagið að vafi sé um það hvort mál þetta varði frekar ágreining um gjaldstofn heldur en gjaldskyldu fasteignaskatts sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995, þar sem gjaldskylda kærenda er óumdeild en ágreiningur málsins snúist um það samkvæmt hvaða álagningarflokki fasteignagjöld vegna sumarhúss kærenda skulu greidd, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Reynist svo vera hefði kærendur átt að beina kæru sinni til Þjóðskrár Íslands en ekki til yfirfasteignamatsnefndar.

Athugasemdir kærenda vegna umsagnar Hvalfjarðarsveitar
Kærendur mótmæla málsástæðum og lagarökum sveitarfélagsins. Kærendur mótmæla því að greinargerð með frumvarpi til laga nr. 144/2000 um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga staðfesti að sumarhús, sem rekin séu í hagnaðarskyni sem mannvirki í ferðaþjónustu, eigi að skattleggja samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. Þvert á móti megi ráða af greinargerðinni að eingöngu sé verið að vísa til smáhýsa og „sumarhúsa tengd ferðaþjónustu“. Tilvísunin til sumarhúsa eigi bara við um sumarhús sem byggð séu og nýtt sérstaklega til afnota í ferðaþjónustu. Ekki sé átt við sumarbústaði í eigu einstaklinga sem að meginstefnu séu nýtt með þeim hætti. Slík hús falli ótvírætt undir a-lið greinarinnar. Fyrst ekki komi skýrt fram í ákvæðinu sjálfu að heimilt sé að skattleggja sumarhús sem byggð séu til einkanota og að meginstefnu nýtt sem slík verði skattlagningin ekki byggð á óljósum og umdeilanlegum skýringum í greinargerð.

Þá telja kærendur að jafnvel þó greinin yrði túlkuð á þann hátt sem sveitarfélagið telji rétt, þá hafi umrætt sumarhús kærenda einungis verið leigt út í 35 daga á árinu 2015. Húsið hafi að langmestu leyti verið nýtt sem sumarbústaður af kærendum sjálfum en að mjög litlu leyti fyrir ferðaþjónustu. Meginnotkun sumarhússins hljóti að ráða því hvernig það sé flokkað. Ólögmætt sé a.m.k. að fella sumarhúsið undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 allt árið þegar fyrir liggur að sumarhúsið hafi að langmestu leyti verið nýttur á hefðbundinn hátt sem sumarbústaður einstaklinga. Það sé andstætt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga og sjónarmiðum um sanngirni.

Kærendur telja augljóst að verði ekki fallist á þá kröfu kærenda að álagningin hafi verið ólögmæt sé a.m.k. eingöngu hægt að miða við þann tíma sem sannanlega liggur fyrir að sumarhúsið hafi verið leigt út. Í málinu liggur fyrir nákvæm skráning á úteigu sumarhússins á árinu 2015. Sveitarfélagið hafi hvorki óskað upplýsinga um það frá kærendum eða Viator Summerhouses Gmbh. og hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Samningar varðandi útleigu hússins og upplýsingar um útleigu á árinu 2015 hafi legið fyrir þegar endurálagningin hafi farið fram og þannig sé svipuð staða uppi og var í máli yfirfasteignamatsnefndar nr. 4/2015. Hafi sveitarfélaginu borið að skoða hvert einstakt mál að þessu leyti.

Í umsögn sveitarfélagsins sé vakin athygli á því að endurflokkun sumarhúss kærenda hafi eingöngu tekið til tveggja mánaða og endurálagning fasteignagjalda miði við sama tíma. Allan tímann hafi verið óljóst til hvaða tímabils hin breytta skráning og álagning ætti að ná. Kærendur benda á að í bréfum sveitarfélagsins til kærenda sé talað um að flokka fasteignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá 15. júlí 2015 og innheimta fasteignaskatt í samræmi við það frá þeim tíma. Í fundargerð fundar Viator Summerhouses Gmbh. og sveitarfélagsins með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 11. ágúst 2015 hafi meðal annars komið fram sá skilningur að ekki yrði um að ræða endurákvörðun á öllum fasteignaskatti ársins 2015 heldur eingöngu fyrir tvo mánuði. Sveitarfélagið hafi svo sent sérstaka leiðréttingu á þessu eins og komið hafi fram í fundargerðinni þar sem sveitarfélagið hafi vísað til setningar í bréfinu um að álagningin yrði 1.65% frá 15. júlí 2015. Þá túlkun hafi sveitarfélagið svo staðfest í bréfi sínu frá 12. október 2015 en nú sé það tekið til baka. Engin leið hafi verið að ráða af innheimtuseðlinum hvaða ákvörðun hafi verið tekin. Telja kærendur því með vísan til þessa að undirbúningur ákvörðunar sveitarfélagsins um endurálagningu hafi verið verulega ábótavant sem og málsmeðferðin í heild.  

Jafnvel þó fallist yrði á að skýrt sé að endurálagningin hafi einungis tekið til tveggja mánaða  þá liggi ekkert fyrir um það hvaða mánuðir það hafi verið. Í greinargerð sveitarfélagsins sé fullyrt að breytingin hafi verið látin ná til tveggja af hinum fimm mánuðum sem eftir hafi verið af árinu þegar ákvörðun um endurflokkun hafi verið tekin. Ákvörðunin sé svo óljós og óskýr að það eitt og sér leiði til ógildingar hennar, sem og ólögmæt málsmeðferð sveitarfélagsins.

Athugasemdir Hvalfjarðarsveitar
Í bréfi Hvalfjarðarsveitar, dags. 14. apríl 2016, eru kröfur sveitarfélagsins ítrekaðar. Þá gerir sveitarfélagið jafnframt kröfu um frávísun málsins en verði ekki á það fallist, að kröfu kæranda um endurgreiðslu fasteignagjalda verði vísað frá.

Þeirri túlkun kærenda er mótmælt að meginnotkun hússins skuli ráða því í hvaða flokk fasteignin sé skipuð samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þvert á móti hafi yfirfasteignamatsnefnd talið að ef eigandi fasteignar, sem á fasteign sem er í útleigu hluta ársins til ferðamanna, hafi ekki sýnt fram á það fyrirfram með hvaða hætti sé fyrirhugað að haga notkun hússins á komandi ári skuli fasteignin flokkuð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 þó svo að sannanlega hafi ekki staðið til að hafa húsið í útleigu allt árið. Ekki verði séð af lögum nr. 4/1995 né af eldri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar að verði talið að sveitarfélaginu sé heimilt að láta notkun fasteignar ráða því í hvaða flokk hún falli að þá skuli einvörðungu miða við þann tíma sem sannanlega liggi fyrir að sumarhúsið hafi verið leigt út.

Sveitarfélagið telur að það hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína varðandi upplýsingar um  útleigutíma eignarinnar. Hins vegar hafi kærendum borið að upplýsa sveitarfélagið fyrirfram um fyrirhugaða útleigu sumarhússins en það hafi hann ekki gert. Það hafi kærendur þurft að gera til að sveitarfélagið gæti lagt á fasteignagjöld vegna ársins 2015 í samræmi við fyrirhugaða notkun hússins fyrir árslok 2014, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Kærendur hafi hins vegar beðið með það þar til að kæra hafi verið send til yfirfasteignamatsnefndar að leggja fram leigusamning sinn við Viator Summerhouses Gmbh., þar sem komi fram fjöldi leigudaga í sumarhúsi kæranda hafi verið 91 á árinu 2015 eða 13 vikur. Hefðu kærendur upplýst sveitarfélagið eða heilbrigðiseftirlit þess um umræddan leigusamning áður en sveitarfélagið hefði lagt á fasteignaskatt vegna ársins 2015 hefði því verið heimilt að leggja fasteignaskatt á sumarhús kærenda samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir að lágmarki þrjá mánuði ársins ef litið sé til eldri úrskurða yfirfasteignamatsnefndar.

Meðalhófs hafi verið gætt gagnvart kærendum þar sem með réttu hefði verið hægt að leggja slík gjöld á sumarhúsið vegna alls ársins 2015 þar sem kærendur hafi ekki upplýst um fyrirhugaða útleigu sumarhússins fyrirfram.

Þá mótmælir sveitarfélagið því að hafa ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Kærendur hafi fyrirfram verið skriflega upplýstur um það sem til stæði og óskað hafi verið eftir andmælum hans. Þegar þau hafi borist hafi engin gögn fylgt um útleigutímabil sumarhússins eða um fjölda útleigudaga. Þvert á móti hafi kærendur sent athugasemdir þar sem reynt hafi verið að draga úr umfangi útleigunnar. Raunveruleg gögn um útleigutímabil hafi sveitarfélaginu hins vegar ekki borist fyrr en eftir að kærendur hafi verið tilkynnt um endurálagningu fasteignagjalda, en yfirlit kærenda yfir leigudaga hafi borist sveitarfélaginu þann 14. ágúst 2015 eða daginn eftir að tilkynnt hafði verið um endurálagninguna. Leigusamninginn hafi sveitarfélagið hins vegar ekki séð fyrr en hann hafi verið lagður fram sem fylgigagn með kæru til yfirfasteignamatsnefndar. Sveitarfélagið telur vegna þessa að það hafi því ekki skort á að kallað hafi verið eftir upplýsingum frá kæranda heldur hafi hann ekki komið þeim á framfæri.

Hvað varði það að endurálagning skuli einungis miða við þann tíma sem sannanlega liggi fyrir að sumarhúsið hafi verið leigt út þá mótmælir sveitarfélagið þeirri kröfu kæranda og vísar til þess sem fram hafi komið í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015 um tilkynningu eigenda á aðgreiningu útleigutímabila. Í samræmi við þann úrskurð geti kærandi ekki gert þá kröfu í málinu að álagningu fasteignaskatta verði hagað með hliðsjón af upplýsingum sem kærandi veitti sveitarfélaginu eftirá um það hvernig útleigu sumarhússins hafi verið háttað á árinu 2015.

Vegna þeirra röksemda kæranda að ekki hafi verið gert grein fyrir því til hvaða tveggja mánaða hin kærða endurálagning nái þá er á það bent af hálfu sveitarfélagsins að þau ákvæði laga nr. 4/1995, sem geri ráð fyrir því að hægt sé að skipta álagningu og innheimtu fasteignaskatta niður á milli gjaldflokka, geri ráð fyrir hlutfallslegri skiptingu milli flokka, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. laganna og 8. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt. Á 6. gr. laganna hafi yfirfasteignamatsnefnd byggt röksemdafærslu sína í eldri úrskurðum sínum hvað varði heimild til að skipta álagningu fasteignaskatta sumarhúsa sem séu í útleigu hluta ársins á milli gjaldflokka. Sveitarfélagið telur að hvorki lögin né reglugerðin geri ráð fyrir því að nauðsynlegt sé að tilgreina þá mánuði sem fasteignaskattar samkvæmt hverjum flokki séu innheimtir heldur aðeins hlutfallslega skiptingu álagðra skatta á milli flokkanna. Þar sem fyrir liggi, og sjá megi af tilkynningu þeirri sem send hafi verið kærendum eftir að endurálagningin hafi verið ákveðin, að kærendur hafi verið gert að greiða fasteignagjöld samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir tvo mánuði af tólf og að hlutfallsleg skipting samkvæmt lögunum hafi legið fyrir og að álagningin hafi því verið framkvæmd með lögmætum hætti.

Hvað varði kröfu kærenda þess efnis að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða þeim ofgreidd fasteignagjöld þá segi m.a. í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 að skjóta megi ágreiningi um gjaldskyldu til yfirfasteignamatsnefndar. Valdheimild nefndarinnar sé þannig sniðinn þröngur stakkur og nái ekki til þess að úrskurða um mögulega endurgreiðsluskyldu vegna ofgreiddra fasteignagjalda. Þetta hafi nefndin staðfest í úrskurði sínum í máli nr. 8/2014. Með vísan til þess krefst sveitarfélagið að þessum hluta kærunnar verði vísað frá nefndinni.

Sveitarfélagið telur að ágreiningur um málsmeðferð sveitarfélagsins og hina umþrættu álagningu í heild falli utan valdsviðs nefndarinnar til að leysa úr ágreiningi um gjaldskyldu eins og það sé skilgreint í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Yfirfasteignamatsnefnd geti því aðeins úrskurðað um þann hluta hvers máls sem snúi að gjaldskyldu kærenda en ekki málsmeðferð sveitarfélagsins og álagningu í heild. Gjaldskyldan ráðist aðeins af því hvernig flokkun sumarhússins samkvæmt lögunum sé háttað hverju sinni. Yfirfasteignamatsnefnd sé því skylt að takmarka málsmeðferð til samræmis við það.

Að lokum gerir sveitarfélagið þá kröfu að málinu verði vísað frá með hliðsjón af því að  lögmaður kærenda hafi lagt fram eina kæru vegna níu sumarhúsa í Hvalfjarðarsveit þar sem endurálagningu allra húsanna sé mótmælt. Að mati sveitarfélagsins séu málsatvik nægilega ólík á milli einstakra mála þannig að það sem kunni að eiga við í einu máli eigi ekki endilega við í öðru og vísast þar t.a.m. til mismunandi dagafjölda sem fyrirhugað hafi verið að leigja hvert hús fyrir sig á árinu 2015 og þess að sumir kærenda, en ekki allir, hafi ekki mótmælt endurálagningunni. Framsetning kærunnar sé því óskýr og óljós og telur sveitarfélagið að slík framsetning eigi að leiða til frávísunar allra málanna.

Niðurstaða
Kærendur gera þá kröfu að endurálagning Hvalfjarðarsveitar frá því í ágúst 2015 á fasteignagjöldum sumarhúss þeirra að Ölveri […], Hvalfjarðarsveit, fnr. […], fyrir árið 2015, verði felld úr gildi og sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kærendum ofgreidd fasteignagjöld. Verði ekki fallist á að fella endurálagninguna úr gildi í heild sinni telja kærendur að álagningu fasteignagjalda vegna sumarhússins verði ekki breytt nema í mesta lagi fyrir þann hluta úr árinu sem húsið hafi sannanlega verið leigt út.

Í umsögn Hvalfjarðarsveitar var sett fram krafa um frávísun málsins og vísað til þess að framsetning á kærunni sé óljós og óskýr þar sem í sömu kærunni hafi verið kærð endurálagning fasteignagjalda vegna níu sumarhúsa í sveitarfélaginu. Málsatvik séu hins vegar sérstök í hverju tilviki fyrir sig , t.d. sé útleigutímabil sumarhúsanna mismunandi og þá hafi einungis hluti eigendanna kært endurálagninguna á sínum tíma.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar hefði farið betur á því að leggja fram sérstaka kæru vegna hvers og eins sumarhúss. Lögmaður kærenda hefur hins vegar sent nefndinni viðbótargögn fyrir hvert og eitt sumarhús sem skýra með greinargóðum hætti þann mun sem er á atvikum í hverju tilviki fyrir sig sem liggur fyrst og fremst í lengd útleigutímabila og viðbrögðum eigenda við endurálagningunni. Yfirfasteignamatsnefnd telur með hliðsjón af framansögðu að ekki séu slíkir annmarkar á kærunni að nefndin geti ekki tekið afstöðu til fyrirliggjandi ágreinings og því ekki forsendur til að vísa málinu frá nefndinni á umræddum grundvelli.                                                                                                                             

Í umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna málsins koma fram efasemdir um hvort ágreiningsefni málsins snúi ekki frekar að gjaldstofni  en  gjaldskyldu fasteignaskatts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995, þar sem gjaldskylda kærenda sé óumdeild en ágreiningur sé hins vegar um álagningarflokk fasteignagjalda vegna sumarhúss kæranda, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Telur sveitarfélagið að kærendur hafi því átt að beina kæru sinni til Þjóðskrár Íslands en ekki til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt gögnum málsins má ljóst vera að álitaefni máls þessa snýr að því hvort greiða skuli fasteignaskatt af sumarhúsi kærenda samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eða samkvæmt c-lið sömu greinar. Yfirfasteignamatsnefnd sker úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga. Ágreiningur málsins lýtur ekki að því hver gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts skuli vera, þ.e. fasteignamat, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, en ágreiningi um gjaldstofn skal vísa til úrskurðar Þjóðskrár Íslands, sbr. 1. máls. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Telst kærunni því réttilega beint til yfirfasteignamatsnefndar.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er með 4. mgr. 3. gr. laganna sveitarstjórn veitt heimild til þess að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Kærendur halda því fram að útleiga sumarhúss þeirra falli ekki undir c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem skýra eigi ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan auk þess sem ríkar kröfur beri að gera til skýrleika skattlagningarheimildar verði talið að lagaákvæðið sé óskýrt hvað þetta varðar. Kveðið er um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórnar að ákveða skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga. Lagaheimild fyrir álagningu er til staðar líkt og áskilið er samkvæmt ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hefur yfirfasteignamatsnefnd staðfest meðal annars í úrskurðum nr. 4/2015 og 18/2015 að fasteign, sem annars myndi falla undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, beri að skattleggja samkvæmt c-lið sama lagaákvæðis ef hún er nýtt fyrir ferðaþjónustu.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Sala á gistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007.

Kærendur mótmæla því að sumarhús þeirra sé nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem um sé að ræða stuttan leigutíma, húsið sé fyrst og fremst nýtt sem sumarhús, engin þjónusta sé veitt og jafnframt séu kærendur ekki rekstraraðilar eða hafi með höndum með atvinnustarfsemi.

Óumdeilt er að kærendur gerðu samning við Viator Summerhouses Gmbh. um framleigu sumarhússins frá 1. febrúar 2015 til 30. janúar 2016 til erlendra ferðamanna gegn endurgjaldi. Samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningi er ljóst að sumarhúsið var til útleigu í 13 vikur á umræddu tímabili. Þannig stóð sumarhúsið til boða fyrir ferðamenn frá 15. júní 2015 til 15. september 2015, eða í samtals 91 dag árið 2015. Þó kærendur hafi ekki rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald breytir það ekki þeirri staðreynd að sumarhúsið var á fyrrgreindu tímabili til útleigu fyrir ferðamenn og leigt út í samtals 35 daga á því tímabili. Þannig verða kærendur að teljast hafa nýtt sumarhús sitt, sem ella félli undir undanþáguákvæði a-liðar, fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrirfram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2013 og 4/2015. Það fyrirkomulag að eigendur geti tilkynnt í lok hvers árs hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstæð lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Fyrir liggur að kærendur tilkynntu ekki um slíka aðgreiningu fyrirfram fyrir árið 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum munu kærendur fyrst hafa upplýst um tímabil útleigu annars vegar og tímabil eigin notkunar hins vegar á árinu 2015 eftir að sveitarfélagið tilkynnti þeim um fyrirhugaða endurálagningu fasteignagjalda eignarinnar. Í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags heimilt að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka samkvæmt 3. mgr. 3. gr. sömu laga ef afnotum fasteignar er þannig háttað að greiða ber af henni fasteignaskatt samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki.

Líkt og áður greinir gerðu kærendur samning við Viator Summershouses Gmbh. frá 1. febrúar 2015 til 30. janúar 2016 með skilgreindu útleigutímabili. Það að sumarhúsið hafi eingöngu verið leigt út 35 daga breytir ekki þeirri staðreynd að sumarhúsið var til reiðu fyrir útleigu til ferðamanna hið skilgreinda tímabil. Af hálfu yfirfasteignamatsnefndar liggur fyrir aðgreining tímabila útleigu annars vegar og tímabil eigin notkunar hins vegar samkvæmt framangreindum samningi, og því grundvöllur til að skipta álagningu téðs sumarhúss og reikna eftir a- og c-liðum 3. mgr. 3. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Af hálfu sveitarfélagsins var ákveðið að fyrir tíu mánuði ársins 2015 yrði álagning samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 en í tvo mánuði samkvæmt c-lið sömu lagagreinar. Ekki verður séð að slík skipting fasteignagjalda gangi gegn fyrrgreindum lagaákvæðum.

Kærendur telja að ólögmætt hafi verið af hálfu sveitarfélagsins að endurákvarða gjöld fyrir þá mánuði sem ógreiddir voru og breyta álagningu þeirra mánaða sem greitt hafði verið fyrir afturvirkt. Þá hafi málsmeðferð sveitarfélagsins verið ólögmæt og óvönduð og brotið gegn andmæla-, rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar.

Í ljósi framangreinds verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákveða hlutfallslega skiptingu fasteignaskatts samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki. Lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga gera ráð fyrir því að heimilt sé að endurákvarða sveitarsjóðsgjöld, sbr. orðalag 2. mgr. 32. gr. laganna. Þá verður ekki séð af lögunum að áskilnaður sé gerður um að tilgreina þurfi sérstaklega til hvaða mánaða innan hvers gjaldárs endurálagningin nái en tilgreina þarf hlutfall skiptingarinnar innan viðkomandi árs. Yfirfasteignamatsnefnd tekur þó undir með kærendum, að við málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið óljóst hvernig þeirri skiptingu yrði háttað. Í tilkynningu sveitarfélagsins um fyrirhugaða endurákvörðun frá 7. júlí 2015 var óljóst hvort umrædd breyting ætti að ná til alls ársins 2015 eða einungis hluta úr árinu eins og síðar var ákveðið. Hins vegar var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum við fyrirhugaða ákvörðun sveitarfélagsins. Þá hefur því ekki verið mótmælt af hálfu kærenda að áðurnefndur leigusamningur hafi ekki legið fyrir hjá sveitarfélaginu fyrr en með kæru til yfirfasteignamatsnefndar, heldur hafi aðeins verið lagt fram yfirlit kærenda um það hversu marga daga umrætt sumarhús hafi verið í útleigu á árinu 2015.

Með hliðsjón af því að kærendum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum og sjónarmiðum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar sveitarfélagsins áður en endanleg ákvörðun var tekin verður ekki séð að brotið hafi verið gegn andmælarétti þeirra. Þá verður heldur ekki séð að sveitarfélagið hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína. Með hliðsjón af þeirri staðreynd að sumarhús kærenda var til útleigu til ferðamanna í samtals 13 vikur á árinu 2015 telur yfirfasteignamatsnefnd að sú ákvörðun sveitarfélagsins að endurákvarða fasteignaskatt ársins 2015 þannig að lögð yrðu á gjöld samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 tvo mánuði ársins, hafi ekki verið íþyngjandi ef litið er til leigusamnings kærenda við Viator Summerhouses Gmbh og þannig hafi meðalhófs verið gætt við fyrrgreinda  ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru álögð fasteignagjöld vegna sumarhúss að Ölveri […], Hvalfjarðarsveit, fnr. […], árið 2015, staðfest.

Með vísan til valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, er kröfu kærenda um endurgreiðslu álagðra fasteignagjalda ársins 2015 af sumarhúsi hans vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Álögð fasteignagjöld vegna sumarhúss að Ölveri […], Hvalfjarðarsveit, fnr. […], árið 2015, eru staðfest.

Kröfu um endurgreiðslu álagðra fasteignagjalda er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn