Hoppa yfir valmynd
20. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fundur vísindamálaráðherra Eystrasaltsráðsins

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra sótti fund vísindamálaráðherra Eystrasaltsráðsins í Kraká í Póllandi 16. júní síðast liðinn, en Ísland tekur við formennsku í ráðinu 1. júlí 2016.

Á fundinum kynnti ráðherra formennskuáherslur Íslands:  Börn, jafnrétti og lýðræði.  Benti hann á mikilvægi vísindastarfs,  og þá sérstaklega hug- og félagsvísinda, í að taka á þjóðfélagslegum áskorunum sem lönd Eystrasaltsráðsins, og Evrópa öll standa frammi fyrir.  Hann lagði áherslu á að samstarf Eystrasaltsráðsins  í vísindum væri þverfaglegt, og næði til allra fræðasviða, ekki einungis þeirra sem skila skjótum fjárhagslegum ávinningi.    

Á fundinum fóru fram umræður um vísindasamstarf ríkja Eystrasaltsráðsins; alþjóðavæðingu, samnýtingu rannsóknarinnviða, hreyfanleika vísindamanna og stuðning við framúrskarandi vísindamenn og nýsköpun.  Í lok fundar var vísindaneti Eystrasaltsríkjanna (Baltic Science Network) hleypt formlega af stokkunum. 

Í Póllandi átti ráðherra  einnig fund með  Jaroslaw Gowin, háskóla- og vísindamálaráðherra og varaforsætisráðherra Póllands.  Ræddu þeir  áherslur og áskoranir  landanna í mennta- og vísindamálum, en einnig hvernig best mætti bæta upplýsinga- og tæknimenntun á yngri menntastigum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum