Hoppa yfir valmynd
20. júní 2016 Utanríkisráðuneytið

Stjórnvöld ræða jafnrétti, kosningar og hatursglæpi við fulltrúa ÖSE

Lilja og Michael Georg Link. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti í morgun fund með Michael Georg Link, framkvæmdastjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, ODIHR. Link er staddur hér á landi í stuttri heimsókn til að ræða við islensk stjórnvöld og frjáls félagasamtök um alþjóðlegt samstarf og áherslur sem varða lýðræði og mannréttindi.

Á fundi sínum ræddu Lilja og Link mikilvægi þess að vinna að kynjajafnrétti, m.a. í gegnum ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1325 um konur, frið og öryggi. Ráðherra sagði jafnrétti einn af burðarásum íslenskrar utanríkisstefnu og skýrði frá aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að fá karla að borðinu þegar rætt er um jafnréttismál, m.a. með svokölluðum Rakarastofuráðstefnum.

Þá ræddu þau þátttöku Íslendinga í kosningaeftirliti ÖSE, sem hefur staðið í tæpa tvo áratugi. Íslendingar hafa sent eftirlitsmenn, karla og konur, til að taka þátt í eftirliti amk. þrisvar á ári. ÖSE hefur fylgst með kosningum í tvígang hér á landi, þingkosningunum 2009 og 2013 en að athuguðu máli taldi stofnunin hins vegar ekki ástæðu til að fylgjast með forsetakosningunum nú .

Auk fundarins með utanríkisráðherra hittir Link fulltrúa innanríkisráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúa Alþingis í þingmannanefnd ÖSE, ofl. þar sem hann ræðir meðal annars um baráttuna gegn hatursglæpum og hvernig vinna megi gegn hatursorðræðu. Þá heldur hann fyrirlestur í Norræna húsinu um áhrif átaka og hryðjuverka á virðingu fyrir mannréttindum, á fundi sem utanríkisráðuneytið og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands standa að.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum