Hoppa yfir valmynd
24. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Egill Sæbjörnsson verður fulltrúi Íslands á 57. Feneyjartvíæringnum árið 2017

Egill Sæbjörnsson - mynd
Egill Sæbjörnsson er myndlistamaður, gjörningalistamaður, tónlistamaður og tónskáld. Sýning hans verður unnin í samstarfi við Stefanie Böttcher sýningarstjóra.

Í fréttatilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar segir meðal annars: "Verk [Egils] samanstanda oftar en ekki af samblöndu raunverulegra hluta sem sveipaðir eru tálsýn og töfrum í gegnum vídeóvörpun og hljóð. Nýmiðlar, gjörningar og tónlistarflutningur spilar stórt hlutverk í verkum hans. Egill beitir kímni sinni, klókindum og dýpt, öllu á sama tíma. Hann ruglar fólk í ríminu og kemur á óvart á meðan hann leiðir okkur á ánægjulegan hátt að tilvistarlegum spurningum. Verk Egils eru tilraunakennd og þarfnast hvorki leiðbeininga né kunnáttu til skilnings og upplifunar.

Fagráðið er stóð að valinu þessu sinni segir: ,,Uppátækjasemin og skopskynið sem einkennir verkefni Egils, auk færni hans í að draga saman aðskilda heima með notkun mismunandi miðla til þess að skapa heilsteypt heildarumhverfi þar sem raunveruleikinn skarast á við hið ímyndaða, mun fanga athygli áhorfenda á Feneyjartvíæringnum árið 2017, með sínum marglaga heimi sem endurspeglar okkar samtíma og á erindi við heiminn allan.” 

Stefanie Böttcher: ,,Ég er mjög heiðruð af vali dómnefndar. Það er heljarinnar áskorun að sýningarstýra íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum sem er ein helsta listasýning í heimi. Ég hlakka afskaplega mikið til verkefnisins og ég er sannfærð um að gestir sýningarinnar verði algjörlega hugfangnir af framlagi Egils Sæbjörnssonar. Um leið og þeir stíga fæti inn í verkið, verða þeir hluti af því.”

Egill Sæbjörnsson (f.1973) býr og starfar í Berlín og Reykjavík. Verk hans og gjörningar hafa verið sýnd í Hamburger Bahnhof - safni fyrir samtímalist í Berlín; Frankfurter Kunstverein; Kölnischer Kunstverein; The Baryshnikov Art Center í New York; Oi Futuro í Rio de Janeiro; PS1 MoMA; Kiasma í Helsinki; Nýlistasafni Ástralíu í Sydney.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum