Hoppa yfir valmynd
28. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nemendum fækkar á framhalds- og háskólastigi

Rúmlega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi í starfsnámi

Hagstofa Íslands hefur birt upplýsingar um fjölda nemenda í skólum ofan grunnskóla. Þar kemur meðal annars fram að nemendum hefur fækkað um 3,4%, mest vegna fækkunar nemenda á háskólastigi. Alls sóttu 95,4% 16 ára framhaldsskóla haustið 2014, 96,3% stúlkna og 94,5% drengja. Þá sóttu 81,3% 18 ára nemenda skóla, fleiri stúlkur en drengir. Helmingur 20 ára nemenda sótti skóla, og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2000. Hugsanleg skýring er að stytting náms til stúdentsprófs hafi leitt til þess að fleiri tvítugir nemendur hafi lokið stúdentsprófi við 19 ára aldur.

Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur hækkað lítillega síðustu tvö ár, frá því það var lægst 33,2% haustið 2012. Hlutfall nemenda í starfsnámi var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 40,7% á móti 28,5% hjá konum. Rúmlega einn af hverjum þremur (34,7%) nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2014 en 65,3% stunduðu nám á bóknámsbrautum.

Skólasókn 16 ára virðist vera minnst meðal innflytjenda en 81,6% þeirra sóttu skóla haustið 2014 og 55,0% voru í skóla við 18 ára aldur. Skólasókn innflytjenda við 18 ára aldur hefur fallið síðustu tvö ár og kann ástæðan að vera sú að þessir nemendur hafi þegar lokið námi á framhaldsskólastigi, því mun hærra hlutfall 17 ára innflytjenda er enn í skóla. Annar möguleiki er sá að þessir 18 ára nemendur séu hættir námi, a.m.k. tímabundið. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum