Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um Friðland að fjallabaki

Að fjallabaki Ljósmynd: Hugi Ólafsson - mynd

Starfshópur sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði hefur skilað skýrslu sinni um Friðland að Fjallabaki. Í skýrslunni eru ýmsar tillögur um hvernig megi styrkja innviði friðlandsins, efla stjórnun og starfsemi auk þess sem hópurinn telur áhugavert og unnt að skapa skilyrði til stækkunar svæðisins.

Friðland að Fjallabaki, sem friðlýst var árið 1979 og í raun Suðurhálendið allt, er einstakt svæði og hefur hátt verndargildi á heimsvísu. Innan Friðlandsins eru Landmannalaugar, eitt af mest sóttu ferðamanna og útivistarsvæðum á hálendi Íslands og þaðan liggur ein vinsælasta gönguleið landsins, Laugavegurinn, sem er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur. Á þessu svæði eru því bæði merk og viðkvæm náttúruverðmæti, en jafnframt mikið og ört vaxandi álag vegna ferðaþjónustunnar.

Ráðherra skipaði starfshópinn í lok júlí 2015 og fól honum með því að leita leiða til að styrkja stöðu svæðis, efla rekstur þess og kanna hvort tækifæri væru til að stækka svæðið.

Í starfshópnum sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar auk þeirra sveitarfélaga sem friðlandið nær til. Í niðurstöðum starfshópsins er bent á fjölmörg umbótaverkefni sem nýtast ráðuneytinu og Umhverfisstofnun við forgangsröðun verkefna og að leita leiða til að efla starfssemi og stjórnun á svæðinu. Í sumar hefur verið aukið við landvörslu á svæðinu og eins er unnið að ýmsum verkefnum á svæðinu sem falla vel að tillögum skýrslunnar. Umhverfisstofnun vinnur nú jafnframt að gerð verndaráætlunar fyrir svæðið og munu niðurstöður skýrslunnar nýtast við þá vinnu.

Þá mun skýrsla starfshópsins með hugmyndum um stækkun friðlandsins gagnast við vinnu nefndar sem kanna á forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu, en þar er ætlað að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins.

Friðland að Fjallabaki - Skýrsla starfshóps (pdf)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum