Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2016 Forsætisráðuneytið

Samstaða á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins

Viðbúnaður og varnir í Evrópu, samskiptin við Rússland og áskoranir úr suðri voru meðal umræðuefna á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Varsjá í dag. Fundinn sóttu fyrir Íslands hönd Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Á fundinum var ákveðið að treysta viðbúnað bandalagsins í sessi, meðal annars í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, og viðhalda jafnframt samtali við Rússland til að draga úr spennu. Ennfremur samþykktu bandalagsríkin beiðni stjórnvalda í Írak um að þjálfa öryggissveitir þar í landi og veita ráðgjöf við uppbyggingu varnar- og öryggismála. Alls eru 66 ríki og stofnanir í bandalagi þeirra sem leggja til aðgerða gegn ISIL, þ.m.t. öll ríki Atlantshafsbandalagsins. Einnig var ákveðið að beita ratsjárvélum bandalagsins við eftirlit og upplýsingamiðlun til aðstoðar fjölþjóðabandalaginu gegn ISIL. Þá hefur Atlantshafsbandalagið aðstoðað við að uppræta smyglhringi og stemma stigu við ólögmætum fólksflutningum á Eyjahafi og er til skoðunar að útfæra það samstarf við aðrar alþjóðastofnanir á Miðjarðarhafi.

Leiðtogar aðildarríkja funduðu jafnframt með leiðtogum Finnlands, Svíþjóðar og Evrópusambandsins um samskiptin við Rússland og framlög ríkja til þjálfunarverkefna í Afganistan. Ákveðið var að halda áfram stuðningi við afgönsk stjórnvöld fram eftir næsta ári. Þá var fundað í NATO-Úkraínunefndinni með forseta Úkraínu.

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Þetta voru afar góðir fundir og ánægjulegt að leiðtogar frá Svíþjóð og Finnlandi sóttu hann einnig. Góð samstaða var um að treysta starfsemi Atlantshafsbandalagsins með það fyrir augum að efla öryggi og auka stöðugleika.“

Ákveðið hefur verið að næsti leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins verði haldinn á næsta ári í nýjum höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel sem teknar verða í notkun á næsta ári.

Yfirlýsingar leiðtogafundarins má finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins www.nato.int .

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum