Velferðarráðuneytið

Mál nr. 354/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 354/2015

Mánudaginn 11. júlí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júní 2015, um endurhæfingarlífeyri vegna búsetu hans í B.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. mars 2015, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 23. júní 2015, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, þar sem segir að þeir sem eigi rétt til lífeyris séu þeir sem hafi verið búsettir hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar þeir tóku hér búsetu. Umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri hafði áður verið synjað í þrjú skipti.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 8. desember 2015. Með bréfi, dags. 9. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 22. desember 2015, þar sem óskað var frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefnd. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. desember 2015. Með bréfi kæranda, dags. 8. febrúar 2016, bárust skýringar á því hvers vegna kæra barst úrskurðarnefnd að liðnum lögboðnum fresti. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir því við kæranda að hann legði fram læknisvottorð eða önnur læknisfræðileg gögn þar sem greint væri frá veikindum hans á tímabilinu frá X til X. Þann 16. mars 2016 bárust viðbótargögn frá kæranda. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem þar komu fram tók úrskurðarnefnd ákvörðun um að taka málið til efnislegrar meðferðar. Í framhaldi af því var óskað efnislegrar greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerðin barst með bréfi, dags. 14. apríl 2016, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 18. apríl 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á endurhæfingarlífeyri hér á landi þrátt fyrir lögheimili hans í B á tímabilinu frá X til X. 

Í kæru segir að kærandi sé fæddur og uppalinn á Íslandi og eigi hér langa starfssögu. Í X hafi hann flutt til B og búið þar um hríð og meðal annars starfað við [...]. Kærandi hafi flutt til Íslands í X en breyting á lögheimili hafi ekki verið gerð fyrr en ári síðar. Á því ári sem kærandi hafi búið á Íslandi án þess að eiga þar lögheimili hafi hann ítrekað og árangurslaust gert tilraunir til að sækja réttindi í B vegna veikinda sinna. Kærandi hafi veikst í X þegar hann var búsettur í B. Hann telji upphaf veikindanna að rekja til fjölmiðlafárs frá seinni hluta ársins X en þá hafi verið fjallað um mál nátengt áfallasögu hans. Læknisvottorð hafi staðfest að hann þjáist af áfallastreituröskun. 

Hin kærða ákvörðun verði ekki skilin öðruvísi en svo að þar sem kærandi hafi veikst í B en ekki á Íslandi eigi hann hvorki rétt á endurhæfingar- né örorkulífeyri í þrjú ár. Sé miðað við lögheimilisbreytingu í X sé hann réttindalaus til X.

Læknisvottorð hafi bæði staðfest veikindi og óvinnufærni kæranda. Hann sé enn óvinnufær. Farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð með tilliti til sanngirni í garð kæranda sem hafi alla tíð að undanskildum sextán mánuðum, þ.e. X til X, búið á Íslandi og eigi hér langa starfssögu. Staðfesting á flutningum til Íslands í X sé að finna í læknisvottorðum og öðrum pappírum þótt vissulega hafi lögheimili ekki verið flutt fyrr en ári síðar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri í fjögur skipti. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í eftirfarandi 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um endurhæfingarlífeyri. Í 4. og 5. mgr. sé fjallað um upphæð og skerðingu lífeyris en í a-lið 1. mgr. sé tekið sérstaklega fram að rétt til lífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi í að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar þeir tóku búsetu hér á landi.

Endurhæfingarlífeyrir sé eingöngu greiddur einstaklingum með lögheimili hér á landi í skilningi lögheimilislaga. Upplýsingar um lögheimilisskráningu sæki Tryggingastofnun ríkisins til Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt upplýsingum þaðan hafi kærandi verið með skráð lögheimili í B á tímabilinu frá X til X.

Þann 11. mars 2014 hafi Tryggingastofnun ríkisins upphaflega borist umsókn kæranda, dags. 3. mars 2014, um endurhæfingarlífeyri. Þá hafi borist læknisvottorð, dags. X, þar sem óvinnufærni kæranda hafi verið staðfest frá X. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands hafi kærandi flutt til Íslands í X og því hafi starfshæfni hans verið skert við flutning hans til landsins. Umsókninni hafi því verið synjað þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um að hafa verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn var lögð fram.

Kæranda hafi í þrjú skipti eftir það verið synjað um endurhæfingarlífeyri þar sem hann eigi ekki rétt á greiðslum fyrr en þremur árum eftir að búseta hófst að nýju á Íslandi samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Tryggingastofnun ríkisins sé bundin af upplýsingum Þjóðskrár Íslands um búsetu og lögheimili.

Að lokum segir að Tryggingastofnun ríkisins telji ljóst að synjun um endurhæfingarlífeyri hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. úrskurði nr. 124/2010, 407/2012 og 282/2014.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri, dags. 23. júní 2015.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefndinni þann 8. desember 2015 en þá var lögboðinn kærufrestur liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Úrskurðarnefndinni bárust skýringar kæranda á því hvers vegna kæra barst að liðnum lögboðnum fresti. Í því tilliti barst meðal annars bréf félagsráðgjafa, dags. X, auk læknisvottorðs, dags. X. Í framangreindum gögnum er staðfest að kærandi hafi glímt við alvarleg veikindi á tímabilinu frá X til X sem meðal annars höfðu í för með sér sjúkrahúsdvöl hans. Í ljósi þessa lítur úrskurðarnefnd svo á að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnislegrar meðferðar.

Ágreiningur málsins snýst um hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris vegna búsetu hans í B.

Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er kveðið á um endurhæfingarlífeyri en þar segir í 3. mgr. að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. nefndrar 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris hafi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar þeir tóku hér búsetu.

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 3. mars 2015. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. a-lið 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um búsetu.

Ljóst er að framangreint búsetuskilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar gildir einnig um endurhæfingarlífeyri þar sem vísað er beint til ákvæðisins í 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem kveður á um endurhæfingarlífeyri.

Samkvæmt upplýsingum úr breytingaskrá Þjóðskrár Íslands var kærandi skráður með lögheimili í B á tímabilinu frá X til X. Samkvæmt þeirri skráningu var skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi ekki uppfyllt þegar umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri barst Tryggingastofnun þann 11. mars 2015. Þá er óumdeilt og viðurkennt af kæranda að veikindi hans hófust þegar hann var búsettur í B. Því er ljóst að starfsorka kæranda var skert þegar hann tók búsetu hér á landi þann X.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi í raun flutt til Íslands í X þrátt fyrir skráningu Þjóðskrár Íslands um lögheimili hér á landi frá X. Á þessu tímabili, þ.e. frá X til X, hafi hann unnið að því að sækja réttindi í B vegna veikinda sinna. Þrátt fyrir að fallist yrði á að kærandi hafi í raun flutt til Íslands í X þá hefur það ekki áhrif á niðurstöðuna í máli þessu, enda hefði hann samt sem áður ekki uppfyllt skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Úrskurðarnefnd telur hins vegar rétt að benda kæranda á að hann geti kannað möguleika á leiðréttingu á lögheimilisskráningu hjá Þjóðskrá Íslands, telji hann skráningu stofnunarinnar ranga. 

Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd að skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, um búsetutíma á Íslandi séu ekki uppfyllt í máli þessu og verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um endurhæfingarlífeyri er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn