Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundað um ferskvatn og loftslagsbreytingar

Evrópskir umhverfisráðherrar funduðu í Bratislava í vikunni. - mynd

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á vatnsbúskap voru í brennidepli á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Bratislava í Slóvakíu 11.-12. júlí. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherra sagði að hröð rýrnun jökla væri áhyggjuefni, en hún gæti meðal annars haft áhrif á vatnsbúskap og nýtingu vatnsorku.

Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að Ísland ætti gnægð af ferskvatni og ekki væri fyrirsjáanlegur vandi hvað það varðar. Loftslagsbreytingar hefðu þó áhrif á vatnsbúskap á Íslandi, því vísindamenn spá að jöklar landsins gætu horfið að mestu leyti á einni eða tveimur öldum ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Jöklar Íslands væru sýnileg birtingarmynd loftslagsbreytinga og unnið sé að verkefni til að fræða þá sem heimsækja þjóðgarða um samspil jökla og loftslags.

Ráðherra sagði að skoða þyrfti votlendi sérstaklega í samhengi við ferskvatn og loftslagsmál. Endurheimt votlendis gæti haft jákvæð áhrif með því að draga úr losun koldíoxíðs.

Ráðherra vakti athygli á rannsóknum og nýsköpun í loftslagsvænum lausnum á Íslandi. Nýjar niðurstöður úr tilraunaverkefni sýndu að niðurdæling koldíoxíðs og binding þess í steindum væri raunhæfur kostur í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Tilraunaverkefni varðandi græna skipatækni væru líka að skila árangri. Ísland hefði áhuga á samstarfi við önnur ríki á þessum og fleiri sviðum.

Þurrkar, flóð og flóttamannavandi

Fram kom á fundinum að búist væri við miklum breytingum á úrkomu og vatnafari í Evrópu á þessari öld vegna loftslagsbreytinga. Tjón vegna bæði flóða og þurrka myndu aukast. Spár gera ráð fyrir aukinni úrkomu í norðanverðri Evrópu, en minni úrkomu í sunnanverðri álfunni. Sérstaklega er óttast að þurrkar á sumrum verði mikill vandi í suður-Evrópu þegar líður á öldina. Í lok 21. aldar gæti úrkoma þar verið svipuð og er í norður-Afríku nú. Þetta kallar á miklu betri nýtingu vatns, ekki síst í landbúnaði til að viðhalda fæðuframleiðslu.

Horfur varðandi ferskvatn væru slæmar í mörgum heimshlutum vegna aukinna þurrka og álags vegna fólksfjölgunar. Hætta væri á þurrkum og vatnsskorti í Miðausturlöndum og stórum hlutum Afríku, sem gæti stóraukið á flóttamannavanda.

Fundinn í Bratislava sóttu umhverfisráðherrar ríkja Evrópusambandsins og EFTA, auk Tyrklands og Albaníu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum