Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi til nýrra laga um kjararáð til umsagnar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið drög að lagafrumvarpi um kjararáð og eru þau birt hér til umsagnar.

Meginefni frumvarpsins

Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana embættismanna, forstöðumanna og annarra þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs sem felst í því að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör. Markmið frumvarpsins er annars vegar að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt og hins vegar að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú. Þau álitaefni sem hér koma til úrlausnar eru hverra launakjör skuli ákveðin af lögbundnum úrskurðaraðila og hvernig skuli skipa ákvörðun um laun og starfskjör þeirra sem ekki falla undir lögbundinn úrskurðaraðila.

Þegar metið er hverra launakjör skuli ákveðin af lögbundnum úrskurðaraðila er rétt að hafa í þeim hópi eingöngu æðstu ráðamenn þjóðarinnar, dómara og saksóknara vegna sérstöðu þeirra samkvæmt stjórnarskránni og tiltekna embættismenn sem eðli starfsins vegna njóta sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Rökin fyrir þessari skipan er að ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um launakjör viðkomandi.

Þróun síðustu ára hefur verið í átt til aukinnar miðstýringar og óhóflegs fjölda þeirra sem falla undir ákvörðunarvald kjararáðs en ástæða er til miðað við eðli starfa og sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Með félaga- og samningsfrelsið að leiðarljósi er það meginmarkmið sett í frumvarpinu að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör og að þau ráðist af samningum á venjulega hátt eftir því sem því verður við komið vegna eðlis starfa eða samningsstöðu.

Með frumvarpinu er lagt til:

  • Að það verði eingöngu verkefni kjararáðs að ákvarða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, allra ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara,
  • að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra taki mið af kjarasamningum á hefðbundinn hátt, þ.e. kjarasamningum Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra,
  • að sérstök starfseining, á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, ákvarði nánari grunnlaunaflokkun og undirflokkun starfa forstöðumanna ríkisstofnana auk forsendna fyrir greiðslu viðbótarlauna þeirra en hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn ákvarði undirflokkun og viðbótarlaun á grundvelli forsendna sem einingin setur þar sem Félagi forstöðumanna ríkisstofnana yrði gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um álitamál sem upp kunna að koma vegna flokkunar starfa og forsendna viðbótarlauna,
  • að ákvörðun kjara framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og framkvæmdastjóra félaga sem eru í eigu hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem er að meiri hluta í eigu ríkisins verði færð aftur til viðkomandi stjórna þar sem stjórnin semdi um laun og starfskjör framkvæmdastjóra á grundvelli starfskjarastefnu félagsins og settrar eigandastefnu ríkisins í félögum og
  • að ákvörðun kjara biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar en fari ekki eftir ákvörðun kjararáðs enda náist samkomulag um það fyrirkomulag milli ríkisins og þjóðkirkjunnar, sbr. samkomulag ríkis og þjóðkirkju frá 1997 og 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Breytt ákvörðun launa forstöðumanna ríkisstofnana

Við útfærslu á nýrri tilhögun launaákvörðunar þeirra forstöðumanna ríkisstofnana sem verða færðir undan ákvörðunarvaldi kjararáðs samkvæmt frumvarpinu er lagt til að haft verði til hliðsjónar það launafyrirkomulag sem gildir um æðstu stjórnendur (Statens lederlønnssystem) í Noregi en það hefur verið í notkun frá því árið 1991. Norska kerfið byggist upp á fimm grunnlaunaflokkum (A–E) og fjórum undirflokkun (0–3) auk tímabundinna viðbótarlauna. Laun fyrir starf ræðst af því í hvaða grunnlaunaflokk og undirflokk starf raðast. Launin eru uppfærð árlega 1. október en um 2/3 starfa raðast nú í grunnlaunaflokk A og B. Samkvæmt norska kerfinu er ákvörðunarvaldi skipt milli aðila þannig að ráðuneyti nýsköpunar-, stjórnsýslu- og kirkjumála staðfestir árlega röðun starfa í grunnlaunaflokk (A–E) og uppfærslu launa fyrir grunnlaunaflokka og undirflokka. Ráðuneyti umbóta- og sveitarstjórnarmála hefur síðan umsjón með uppfærslu launa 1. október ár hvert og nánara eftirlit með framkvæmd launaákvarðana. Viðkomandi fagráðuneyti ákvarðar síðan í hvaða undirflokk starf raðast (0–3). Viðbótarlaunin eru tímabundin og ákveðin af viðkomandi fagráðuneyti og greiðast fyrir árangur í starfi. Eru þau metin árlega á grundvelli árangurs og frammistöðusamtals og geta mest orðið 30% af grunnlaunum. Í sérstökum tilvikum getur ráðuneyti nýsköpunar-, stjórnsýslu- og kirkjumála ákveðið hærri viðbótarlaun. Norðmenn breyttu hins vegar kerfinu á árinu 2015 þannig að ákvörðunin er ekki lengur tvíþætt heldur ákvarðar viðkomandi fagráðherra laun sinna stjórnenda án aðkomu ráðuneytis nýsköpunar-, stjórnsýslu- og kirkjumála en ráðuneyti umbóta- og sveitarstjórnarmála uppfærir árlega hámark og lágmark hvers grunnlaunaflokks (A–E). Í frumvarpinu er hins vegar ekki lagt til að gengið verði jafn langt að þessu sinni heldur er lagt til að sú leið sem Norðmenn viðhöfðu frá 1991 til 2015 verði höfð til hliðsjónar við útfærslu nýrrar tilhögunar launaákvörðunar.

Lagt er til í frumvarpinu að sérstök starfseining, kjara- og mannauðssýsla ríkisins, ákvarði fjölda grunnlaunaflokka starfa, á hvaða forsendum sú grunnlaunaflokkun byggist og í hvaða grunnlaunaflokk einstöku starfi er skipað og forsendur fyrir frekari undirflokkun þeirra auk forsendna fyrir greiðslu viðbótarlauna. Hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn ákvarði undirflokkun forstöðumanns og viðbótarlaun á grundvelli forsendna sem einingin setur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Félagi forstöðumanna ríkisstofnana verði gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um álitamál sem upp kunna að koma vegna flokkunar starfa og forsendna viðbótarlauna.

Drög að frumvarpi til laga um kjararáð eru birt hér til umsagnar. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til og með 5. ágúst nk. og skulu þær berast á netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira