Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2016 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Stefnumótun, skipulagsbreytingar og undirbúningur nýrra stofnana meðal helstu verkefna 2015

Ársrit innanríkisráðuneytisins 2015. - mynd
Viðamiklar skipulagsbreytingar, vinna í stefnumótun, undirbúningur stofnunar millidómstigs og margs konar tölfræði um starfsemi innanríkisráðuneytisins er meðal efnis í fyrsta ársriti ráðuneytisins sem gefið er út rafrænt.

Ársrit innanríkisráðuneytisins fyrir árið 2015 kom út á dögunum og er þar annars vegar sagt frá helstu verkefnum síðasta árs og hins vegar birt tölfræði um starfsemi ráðuneytisins á fimm ára starfstíma þess.

Umfangsmesta breytingin er varðar stofnanir ráðuneytisins tók gildi í byrjun árs 2015 þegar umdæmum sýslumannsembætta var fækkað úr 24 í 9 og umdæmum lögreglustjóra úr 15 í 9. Eru þetta mestu skipulagsbreytingar sem orðið hafa á þessum embættum og hefur verið unnið að þeim í mörg undanfarin ár. Þá hefur skipulagi samgöngustofnana verið breytt og þeim fækkað úr fjórum í tvær og slysarannsóknarnefndir á sviði umferðar, siglinga og flugs verið sameinaðar í eina.

Á síðasta ári var unnið að mótun réttaröryggisáætlunar en réttarvörslukerfið er grundvöllur réttarríkis. Fjórir meginþættir réttarvörslukerfisins eru lögreglurannsóknir, ákæruvald, dómstólar og fullnusta refsinga. Með réttaröryggisáætlun er í fyrsta sinn unnið að heildstæðri áætlun um réttarvörslukerfið og fjárveitingar til málaflokksins og stofnana þess tengdar við aðgerðir.

Undirbúningur að starfsemi nýs embættis héraðssaksóknara hófst á árinu með skipan héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara en embættið tók til starfa í byrjun árs 2016. Um leið var embætti sérstaks saksóknara lagt niður.

Þá voru á síðasta ári samþykktar stefnur í öryggis- og almannavarnarmálum og um net- og upplýsingaöryggi. Stefna í almannavarna- og öryggismálum miðar að því að tryggja heildarsýn yfir áhættuþætti og felur hún í sér megináherslur fyrir málefnasvið almannavarna og 42 aðgerðir sem þykja nauðsynlegar og varða öryggi samfélagsins. Stefnu um net- og upplýsingaöryggi er ætlað að tryggja nauðsynleg viðbrögð vegna vaxandi netógna sem steðjað geta að stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum. Er þar að finna framtíðasýn til ársins 2026 þar sem sett eru fram markmið.

Unnið hefur verið að undirbúningi millidómstigs en gert er ráð fyrir að þriðja dómstigið, landsréttur, taki til starfa árið 2018. Er það áfrýjunardómstóll sem skipað er milli héraðsdómstóla og Hæstaréttar Íslands sem verður eftir sem áður æðsti dómstóll landsins. Megin markmiðið með hinu nýja dómstigi er að tryggja endurskoðun á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar á áfrýjunarstigi þannig að alþjóðlegum kröfum um milliliðalausa sönnunarfærslu verði fylgt á áfrýjunarstigi í einkamálum og sakamálum.

Af öðru efni ársritsins má nefna yfirlit yfir fjárframlög til ýmissa málaflokka og verkefna ráðuneytisins og hvernig þau hafa aukist á fimm árum, svo sem til útlendingamála, lögregluembætta og vegamála. Einnig er þar að finna tölfræði um mála- og skjalafjölda sem ráðuneytinu hafa borist, um þingmál, starfsmannamál og fleira.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum