Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar á lögum um grunnskóla

Með lögunum er meðal annars settur rammi um starfsemi sjálfstætt starfandi grunnskóla og um starfsemi frístundaheimila fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla.

Alþingi samþykkti í júní sl. frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum, um sjálfstætt rekna grunnskóla, valdmörk ráðuneyta, tómstundastarf og frístundaheimili. Markmið laganna eru meðal annars að skýra réttindi nemenda og foreldra auk þess að bæta stöðu þeirra sem ábyrgð bera á rekstri grunnskólanna, þ.e. sveitarfélaganna annars vegar og rekstraraðila sjálfstætt starfandi grunnskóla hins vegar. Með lögunum er settur rammi um starfsemi sjálfstætt starfandi grunnskóla og um starfsemi frístundaheimila fyrir börn í yngri árgöngum grunnskóla. Þá voru gerðar orðalagsbreytingar til samræmis við almenna málvenju og fleira.

Lög um breyt­ingu á lög­um um grunnskóla, nr. 91/​2008, með síðari breyt­ing­um (sjálfstætt rekn­ir grunnskól­ar, breytt vald­mörk ráðuneyta, tóm­stund­astarf og frí­stunda­heim­ili).

Í skýringum við frumvarpið kemur meðal annars fram að meginmarkmið þess séu eftirfarandi:

1.   Lögð er til breytt hugtakanotkun í grunnskólalögum, þannig að framvegis verði rætt um skólaþjónustu í lögunum en ekki sérfræðiþjónustu.

2.   Lagt er til að 5. mgr. 6. gr. grunnskólalaga falli brott. Með ákvæðinu er mælt fyrir um sérstaka reglu, sem leiðir þegar af almennum reglum íslensks stjórnsýsluréttar.

3.   Lagt er til ákvæði sem veitir skólastjórum skýra heimild til að ákveða útfærslu á starfstíma nemenda, með þeim sem sjá um frístundastarf, að höfðu samráði við skólanefnd, skólaráð viðkomandi skóla og foreldra.

4.   Lagt er til að 33. gr. verði framvegis eingöngu látin ná yfir tómstunda- og félagsstarf. Heiti greinarinnar er breytt til samræmis við það auk þess sem felld eru á brott ákvæði sem lúta að lengdri viðveru. Þess í stað er lögð til ný grein sem fjallar eingöngu um frístundaheimili.

5.   Lagt er til ákvæði þess efnis að öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skuli gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila en sveitarfélög ákveða hvernig staðið er að skipulagi starfsins.

6.   Lagt er til að heiti X. kafla laganna verði breytt í Sjálfstætt reknir grunnskólar.

7.   Lögð er til ný 43. gr., sem ber yfirskriftina sjálfstætt reknir grunnskólar.

8.   Lagt er til að við lögin bætist nýjar lagagreinar, 43. gr. a til 43. gr. f.

9.   43. gr. a kveður á um þjónustusamning milli sveitarfélags sem skóli starfar í og rekstraraðila og að ráðuneytið skuli staðfesta slíka samninga. Þar er einnig mælt fyrir um að sveitarfélag geti hafnað að gera slíkan þjónustusamning eða takmarkað hann við tiltekinn nemendafjölda. Að lokum er kveðið á um með tíu töluliðum hvað skal að minnsta kosti fjalla um í þjónustusamningi.

10. 43. gr. b fjallar um fjárframlög úr sveitarsjóði. Lögð er til óbreytt reikniregla fyrir opinberu framlagi frá því sem nú er en reglan hefur verið í gildi frá upphafi árs 2007. Þó er lagt til að Hagstofa Íslands uppreikni framlögin mánaðarlega en ekki árlega eins og nú er gert. Að lokum er kveðið á um sérstaka heimild fyrir sveitarfélög að greiða stofnframlag til sjálfstætt starfandi skóla.

11. Með 43. gr. c er mælt fyrir um almennar kröfur til einkaaðila sem reka grunnskóla með fjórum töluliðum auk þess sem þar er tilgreint að ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi og ákvæði um þagnarskyldu taki til stjórnarmanna.

12. Í 43. gr. d verður fjallað um almennar kröfur til skólahalds í sjálfstætt reknum grunnskólum í níu töluliðum. Tilgangur þessarar reglu er að tryggja lágmarks inntak þeirrar kennslu og þjónustu sem veitt er í sjálfstætt reknum grunnskóla og taka af allan vafa um samspil annarra ákvæða grunnskólalaganna og skólastarfs í sjálfstætt reknum skóla.

13. Með 43. gr. e er mælt fyrir um með níu töluliðum þær sérstöku skyldur sveitarfélagsins sem virkjast þegar samningur þess við einkaaðila um grunnskólahald felur í sér að einkaaðilinn tekur að sér rekstur skóla sem börn eða foreldrar þeirra eiga ekki val um hvort þau innritast í.

14. Í 43. gr. f er að finna reglugerðarheimild.

15. Lagt er til að heiti XI. kafla verði breytt í „Þróunarskólar, samrekstur, heimakennsla, úrlausn ágreiningsmála o.fl.“.

16. Lögð er til ný 45. gr. í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 þar sem mælt er fyrir um að ákvæði þeirra laga skuli gilda um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald.

17. Lagt er til ákvæði þess efnis að ráðherra geti veitt rekstraraðila heimild til að starfa samkvæmt grunnskólalögum ef sveitarfélag hefur hafnað því að gera þjónustusamning við rekstraraðilann en í þessu felst ekki réttur til opinbers framlags.

18. Að lokum er lagt til að allar stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á vegum grunnskóla og sveitarfélaga á grundvelli grunnskólalaga, verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis, þ.m.t. ákvarðanir sem teknar eru í sjálfstætt starfandi skólum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum