Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2016 Matvælaráðuneytið

Um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2016/2017

Fiskur á ís
Fiskur á ís

Á fiskveiðiárinu 2016/2017 mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthluta aflamarki til stuðnings byggðarlögum samkvæmt reglugerð 640/2016. 

Aflamarkið kemur af frádregnu 5,3% af heildarafla hverrar tegundar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða 116/2006. Undir aflamarkið fellur m.a afli til línuívilnana, strandveiða, rækju og skelbóta, frístundaveiða, áframeldi á þorski og byggðastuðnings. Ráðstöfun aflamagnsins byggir á þingsályktun 38/145, 2015-2016.

Á grunni byggðarstuðnings í lögunum er veittur tvenns konar kvóti, almennur byggðakvóti og byggðakvóti Byggðastofnunar. Byggðakvóta Byggðastofnunar er úthlutað af stofnuninni til byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og er gerður samningur um veiðar og vinnslu til nokkurra ára að uppfylltum vissum skilyrðum. Almennum byggðakvóta er ráðstafað af atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu sem úthlutar samkvæmt reglugerð.

Undir reglugerðina falla:

  • Byggðarlög sem  lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski.
  • Byggðarlög sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.

Byggðarlög samkvæmt 1. mgr. eru byggðarkjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2016. Í reglugerðinni er einnig að finna forsendur sem liggja til grundvallar útreiknings aflaheimilda.

“Heildarkvóti til byggða landsins hefur aukist undanfarin ár í takt við vilja Alþingis og ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er úr minna að moða í ár meðal annars vegna loðnubrests, sem minnkar 5,3% aflamagnsins sem dregið er frá heildarafla og því varð að aðlaga ráðstöfunina að því. Vilji okkar hefur hins vegar verið að auka vægi byggðakvóta Byggðastofnunar en úttekt Vífils Karlssonar á byggðakvóta Byggðastofunar sýndi að sú aðferð lofar góðu og gaf Vífill aðferðarfræðinni góð meðmæli” segir Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Eins og má sjá á meðfylgjandi töflu hefur vægi Byggðakvóta Byggðastofnunar aukist síðastliðin ár.

  2013/2014 14/15 15/16 16/17
Byggðakvóti 8.239  7.355 6.852 5.623
Byggðakvóti Byggðastofnunar 2.193 3.472 4.901 5.634
Samtals, tonn úr sjó 10.432 10.827 11.753 11.257

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum