Dómsmálaráðuneytið

Aukin þjónusta við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Aukið var verulega við þjónustu við þá sem kjósa vildu utan kjörfundar hér á landi í aðdraganda forsetakosninganna 25. júní síðastliðinn. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fór fram hjá sýslumannsembættum um land allt. Fækkun embættanna hafði engin áhrif á þjónustu þeirra, enda eru afgreiðslustaðir sýslumanna eftir sem áður jafnmargir.

Þá bættu embættin við nokkrum kjörstöðum í umdæmum sínum og fengu einnig í fyrsta sinn til liðs við sig sveitarfélög víða um land til að annast utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Sýna tölur að aukin þjónusta var mikið notuð.

Tildrög breytinga

Í kjölfar könnunar sem fram fór haustið 2014 á ástæðum minnkandi kjörsóknar við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2014 var ákveðið að leita leiða til að bæta þjónustu við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Fram kom í könnuninni að í kringum 20% svarenda taldi að það hefði aukið líkur á þeir hefðu kosið ef aðgengi að utankjörfundaratkvæðagreiðslu hefði verið betra.

Viljayfirlýsing um samstarf

Í aðdraganda forsetakosninganna skrifuðu Sýslumannafélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um samstarf við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Í henni fólst að sveitarfélög sem áhuga hefðu á gætu annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í sveitarfélaginu í samstarfi við viðkomandi sýslumann og boðið þannig upp á betri þjónustu en ella. Yfirlýsingin er grundvölluð á 58. grein laga um kosningar til Alþingis en þar er kveðið á um að sýslumönnum sé heimilt að ráða aðra trúnaðarmenn til að gegna starfi kjörstjóra.

Framkvæmdin var á þá lund að sveitarfélagið lagði til starfsmenn og húsnæði. Umræddir starfsmenn urðu síðan sérstakir kjörstjórar á vegum sýslumanns sem ber að öðru leyti ábyrgð á framkvæmdinni allri. Nokkur sýslumannsembætti juku á þennan þátt þjónustu sína og voru starfsmenn yfir 20 sveitarfélaga fengnir til að sinna þessu verkefni.

Aukin þjónusta mikið notuð

Samkvæmt tölum um utankjörfundaratkvæði greiddu um 30% kjósenda á Austurlandi atkvæði á skrifstofum sveitarfélaga en það var unnt að gera á sex stöðum á Austfjörðum og Fljótsdalshéraði. Á Norðurlandi eystra var bætt við átta stöðum til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á Suðurlandi var sjö stöðum bætt við. Hlutfall kjósenda á Suðurlandi sem kaus hjá sveitarfélögum var um 18%. Tölur hafa ekki borist frá öðrum umdæmum þar sem þjónustan var aukin með þessum hætti.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn