Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2016 Matvælaráðuneytið

Viljayfirlýsing við Dartmouth háskólann í Bandaríkjunum um rannsóknir á sviði sjávarlíftækni

Ragnheiður Elín og Robert C. Barber sendiherra Bandaríkjanna - mynd

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands viljayfirlýsingu um samstarf við Dartmouth háskólann í Massachusetts um rannsóknir á sviði sjávarlíftækni og hagnýtingu á þeim.

Á undanförnum árum hafa íslensk fyrirtæki náð miklum árangri í fullvinnslu fiskafurða þökk sé öflugum rannsóknum í líftækni og markvissri vöruþróun. Fiskúrgangur heyrir nú nánast sögunni til enda er nýtingarhlutfallið á hverjum þorski sem kemur á land yfir 95%. Meðal óhefðbundinna afurða má nefna ýmis konar lækningavörur, snyrtivörur og tískuvörur. Að sama skapi er unnin fjölþætt rannsóknarvinna á vegum vísindamanna í Dartmouth háskólanum sem snýst m.a. um hagnýtingu fiskistofna, nýja tækni til að búa til lífeldsneyti og það hvernig flýta megi niðurbroti plasts sem notað er við fiskvinnslu og veiðar. Þess má geta að íslenski Sjávarklasinn er nú þegar að vinna með vísindamönnum innan skólans að hugmyndum um fullvinnslu á skel, m.a. sem eldsneytisgjafa.

Það eru mikil tækifæri tengd rannsóknum í sjávarlíftækni og hagnýtingu þeirra og öflugt samstarf íslensks sjávarútvegs og Dartmouth háskólans hefur alla burði til að skila miklum árangri fyrir báða aðila.

Ragnheiður Elín iðnaðar- og viðskiptaráðherra: „Íslenskur sjávarútvegur hefur á síðustu árum þróast æ meir yfir í það að verða þekkingardrifinn hátækniiðnaður sem byggir m.a. á vísindarannsóknum á sviði líftækni. Samstarf við Dartmouth háskólann er hagsmunamál fyrir báða aðila og mun vonandi skapa ýmis ný tækifæri“.

Mohammed Karim forseti akademískrar starfsemi (provost) Dartmouth háskólans: „Þetta er einstakt tækifæri til að byggja vísindalega og viðskiptalega brú á milli Massachusetts og Íslands. Sjávarútvegur hefur alla tíð skipt miklu máli fyrir bæði samfélögin og samstarf okkar á milli skapar ótal tækifæri jafnt fyrir háskólasamfélagið sem og sjávarútveginn og allar þær atvinnugreinar sem honum tengjast.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum