Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra verndari herferðar Women in Parliaments Global Forum

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, hefur fallist á að gerast verndari herferðar Women in Parliaments Global Forum – WIP Leadership Campaign, en hugmyndina að herferðinni má rekja til HeForShe herferðar UN Women þar sem forsætisráðherra er í hópi 10 þjóðarleiðtoga sem eru í farabroddi þess átaks. Um leið samþykkti ríkisstjórnin að veita fjórum milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til herferðar WIP. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra,  segir ánægjulegt að leitað hafi verið til forsætisráðherra Íslands um að gerast verndari herferðar WIP, en það hafi komið til aðallega vegna forystu Íslands á sviði jafnréttismála á heimsvísu.  ,,Þetta er staðfesting á því að Ísland hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum til margra ára. Við fögnum þessu framtaki og það er afar ánægjulegt að geta stutt við það. Við Íslendingar vitum að jafnréttismál skipta alla máli, á öllum sviðum og stigum samfélagsins og teljum okkur enn hafa þar verk að vinna,“  segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.

Herferð WIP felst einkum í því að hvetja karlleiðtoga heims til þess að beita sér fyrir aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum og sem leiðtogar í stjórnmálum. Öllum karlkyns forsetum og forsætisráðherrum hefur verið sent bréf þar sem vakin er athygli á málefninu og þeim boðið að leggja sitt af mörkum í formi stuttra yfirlýsinga um það hvers vegna þörf er á að auka hlut kvenna á þjóðþingum ríkja heims og sem stjórnmálaleiðtoga. 

Samtökin Women in Parliaments Global Forum er alþjóðlegt net kvenþingmanna, sem telur um 9000 kvenþingmenn. Frekari upplýsingar um samtökin og herferðina má finna á vefslóðinni: womeninparliaments.org/leadership/

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum