Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2016 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra á saltfiskhátíð í Portúgal

Þórður Ægir Óskarsson sendiherra, Ragnheiður Elín, rektor Háskólans í Aveiro, borgarstjóri Ilhavo og Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur - mynd

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er um þessar mundir stödd á saltfiskhátíð í Ilhavo í Portúgal en hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar þar í landi. Löng hefð er fyrir saltfiskviðskiptum á milli Íslands og Portúgals og í ferðinni hitti ráðherrann meðal annars sjávarútvegsráðherra Portúgals.

Hátíðin stendur yfir dagana 17.-21. ágúst og búist er við rúmlega 200.000 gestum. Íslandi var boðin þátttaka í hátíðinni á grundvelli vinabæjartengsla Ilhavo og Grindavíkur. Auk kynningar á íslenskum saltfiski hefur verið lögð áhersla á að kynna íslenska menningu og Ísland sem áfangastað ferðamanna. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík sótti hátíðina heim auk hafnarstjóra Grindavíkur, forseta bæjarstjórnar, formanns bæjarráðs, skólastjóra Fisktækniskólans og Þórði Ægi Óskarssyni, sendiherra Íslands gagnvart Portúgal og fulltrúum sjávarútvegsfyrirtækja.

Ragnheiður Elín heimsótti háskólann í Aveiro en skólinn sérhæfir sig í tæknigreinum og ferðamálafræði auk sjávarútvegsfræðum og tók rektor skólans á móti ráðherranum og borgarstjóranum í var Ílhavo. Rektorinn kynnti skólann og ræddir voru hugsanlegir samstarfsmöguleikar m.a. í nýsköpun í sjávarútvegi og ýmislegt er varðar menntun starfsmanna í ferðaþjónustu. Hópurinn snæddi hádegisverð ásamt borgarstjóra, bæjarstjórnarmönnum og forstjóri markaðsskrifstofu ferðamála héraðsins.

Hádegisverður með borgarstjóranum í Ilhavo 

Á sýningunni voru þjóðfánar Portúgals og Íslands ásamt fánum systurbæjanna, Ílhavo og Grindavíkur dregnir að húni og hylltir við litla rauða Eldhúsið, sem er miðstöð kynningar á Íslandi á hátíðinni. Við það tilefni tók hljómsveitin Ylja nokkur íslensk lög.

Ráðherrann og íslenska sendinefndin funduðu með sjávarútvegsráðherra Portúgals og ýmsum samtökum og fyrirtækjum sjávarútvegi og ferðamálum þar sem meðal annars voru ræddar ábyrgar fiskveiðar, samskipti þjóðanna og nýsköpun í ferðamálum. Viktor Örn Andrésson matreiðslumeistari, sem er fulltrúi Íslands í Bocus d‘Or matreiðslukeppninni 2017, kynnti íslenskan saltfisk á sýningunni.

Portúgalar eru stærstu neytendur á saltfiski í heiminum á hvern íbúa. Portúgal er mjög mikilvægur markaður fyrir íslenskan saltfisk en frá árinu 2005 hefur útflutningur þangað verið á bilinu 8-12.000 tonn á ári. Á hátíðinni eiga saltfiskverkendur og veitingahús á svæðinu í samstarfi og bjóða upp á fjölbreytta rétti fyrir sanngjarnt verð. Fjölmargir þeirra bjóða upp á fisk frá Íslandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum