Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Síðasta útskrift úr Lögregluskóla ríkisins

Síðasti hópurinn útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins í dag. - mynd

Í dag voru síðustu nemendurnir útskrifaðir úr Lögregluskóla ríkisins sem nú verður lagður niður og lögreglunámið fært á háskólastig. Sextán lögreglumenn voru útskrifaðir, 5 konur og 11 karlar. Háskólanum á Akureyri hefur verið falið að annast kennslu og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða og um leið hefur verið stofnað mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar sem heyrir undir ríkislögreglustjóra.

Við útskriftarathöfnina í dag, sem fram fór í Salnum í Kópavogi, flutti Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri skólans, ávarp svo og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis. Einnig ávarpaði nemendur Magnús Einarsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn.

Frá vinstri: Birna Blöndal Sveinsdóttir, Tómas Helgi Tómasson, Katrín Ýr Árnadóttir og Karl Gauti Hjaltason.

Frá vinstri: Birna Blöndal Sveinsdóttir, Tómas Helgi Tómasson, Katrín Ýr Árnadóttir og Karl Gauti Hjaltason.

Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og góðan árangur í íslensku. Þá fékk lögreglumaður skólans viðurkenningu og fluttur var annáll nemenda auk þess sem tónlist var á dagskrá. Karl Gauti afhenti þremur nemendum viðurkenningar fyrir bestan námsárangur og hlutu þær viðurkenningar þau Tómas Helgi Tómasson, Birna Blöndal Sveinsdóttir og Katrín Ýr Árnadóttir og hlaut sú síðastnefnda hæstu meðaleinkunnina, 9,47.

Katrín Ýr Árnadóttir fékk verðlaun fyrir bestan námsárangur og hæstu einkunn í íslensku.

Þá fékk Katrín Ýr Árnadóttir einnig verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku en einkunn hennar var 10 og afhenti Ragnhildur Hjaltadóttir henni þau.

 

Sextán voru útskrifaðir úr Lögregluskóla ríkisins í dag.

Ragnhildur Hjaltadóttir flutti skólanum og útskriftarnemum kveðju Ólafar Nordal innanríkisráðherra og sagði hún lögregluna njóta mikils trausts sem væri viðurkenning á störfum hennar. Hún sagði að virðing fyrir störfum lögreglunnar ætti rætur að rekja til þess að lögreglumenn ynnu starf sitt af þekkingu, alúð og árvekni. Þá sagði ráðuneytisstjórinn að nú væru tímamót í starfi skólans, hann yrði lagður niður og námið fært á háskólastig um leið og stofnað væri mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar. Með breytingunum væri leitast við að auka nám lögreglumanna svo og möguleika þeirra til áframhaldandi náms hérlendis sem erlendis og þar með að auka sérhæfingu. Í lok ávarps síns þakkaði Ragnhildur starfsmönnum Lögregluskólans og skólastjóra fyrir áratuga framlag þeirra sem hafi skilað mörg hundruð lögreglumönnum út í samfélagið og menntað þá fyrir krefjandi störf.

Lokaorð ráðuneytisstjórans voru þessi: „Ég endurtek hamingjuóskir mínar og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar sem lögreglumenn. Ykkur er falin mikil ábyrgð með nýjum áskorunum. Þið munið standa undir þeim væntingum með ykkar góðu menntun og reynslu. Megi gæfan fylgja ykkur.“

Um 1.300 útskrifaðir á nærri hálfri öld

Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskólans, sagði meðal annars í ræðu sinni að nemendur hefðu sinnt náminu af krafti og lagt hart að sér. Sagði hann starfsfólk skólans fullvisst um að hópurinn væri albúinn að vinna krefjandi lögreglustörf og standast væntingar. Hann stiklaði á stóru í sögu skólans og sagði skólann hafa á tæplega hálfrar aldar starfstíma útskrifað kringum 1.300 lögreglumenn. Hann sagði lögreglumönnum hafa fækkað undanfarin ár og að endurnýjunarþörfinni hefði hvergi nærri fullnægt síðustu árin. Sagði hann það úrlausnarefni stjórnvalda að efla lögregluna á ný.

Karl Gauti Hjaltason skólastjóri flutti ávarp.

Skólastjórinn sagði flutning lögreglunáms á háskólastig fela í sér mörg ný tækifæri og sagði afar mikilvægt að þetta tækifæri til sóknar verði nýtt til framfara fyrir lögregluna í landinu. Hann kvaðst vilja ítreka þá skoðun sína að verklegri kennslu í vinnubrögðum lögreglu verði fléttað saman við bóklega kennslu með þeim hætti að lögreglumenn verði áfram vel í stakk búnir til að takast á við krefjandi störf í lögreglunni. Að lokum óskaði hann útskriftarhópnum alls góðs og kvaðst vona að upplifun þeirra í starfi lögreglumanna verði jákvæð og hvatti þau til að nálgast starfið, starfsfélagana og allt það umrót sem fylgdi starfinu með jákvæðu hugarfari.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira