Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Styttist í Fund fólksins – lýðræðishátíð um samfélagsmál

Um 70 aðilar; félagasamtök, stjórnmálaflokkar, stofnanir og fyrirtæki, hafa skráð sig til þátttöku á Fundi fólksins sem haldinn verður í Reykjavík 2. og 3. september nk. Hátíðin er vettvangur til að virkja lýðræðið og brúa bilið milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu.

Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Almannaheilla og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra við undiritun samningsins sl. vorVelferðarráðuneytið er helsti stuðningsaðili hátíðarinnar samkvæmt samningi sem félags- og húsnæðismálaráðherra og Almannaheill – Samtök þriðja geirans gerðu með sér og undirritaður var sl. vor. Fundur fólksins var haldinn í fyrsta skipti hér á landi í júní í fyrra. Framkvæmdin var í höndum Norræna hússins sem skapaði fundinum umgjörð með þátttöku 40 félagasamtaka sem stóðu fyrir yfir 150 dagskrárliðum. Fundurinn var haldinn í anda sambærilegra viðburða sem hafa fest sig í sessi á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár, svo sem Almendalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi.

Stefnt er að því að Fundur fólksins verði árlegur viðburður þar sem vettvangur skapast fyrir umræður og skoðanaskipti á breiðum grundvelli með aðkomu allra mögulegra aðila sem vilja hafa áhrif á samfélagið og þróun þess til góðs. Félagið Almannaheill mun annast skipulag fundarins og fær samkvæmt samningnum fjögurra milljóna króna fjárframlag á þessu ári og sömu fjárhæð árið 2017 til stuðnings framkvæmdinni.

Tjaldbúðir við Norræna húsið 2. og 3. september

Fundur fólksins verður haldinn í Norræna húsinu og þar verður slegið verður upp tjaldbúðum þar sem hin ýmsu félagasamtök, stjórnmálaflokkar, stofnanir og fyrirtæki verða með starfsemi og „þjóðþekktir einstaklingar stjórna sjóðheitum umræðum“ eins og segir í tilkynningu Almannaheilla en tónlistaratriði og skemmtilegar uppákomur verða í bland við líflegar umræður.

Dagskrá Fundar fólksins verður kynnt nánar eftir helgi en áhugasömum er jafnframt bent á vefsvæði hátíðarinnar og upplýsingar á samfélagsmiðlum. Þorsteinn Guðmundsson leikari og uppistandari gekk til liðs við hátíðina og framleiddi myndbönd til að vekja athygli á Fundi fólksins og eru þau aðgengileg á YouTube (sjá tengingar á facebook).

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum