Velferðarráðuneytið

Mál nr. 184/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 184/2016

Mánudaginn 29. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins á umsóknum hennar um barnalífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um barnalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 13. ágúst 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 14. október 2014. Kærandi óskaði á ný eftir greiðslum barnalífeyris með tölvupósti til Tryggingastofnunar þann 5. febrúar 2016. Kæranda var greint frá því með tölvupósti frá stofnuninni að barnalífeyrir með börnum væri greiddur vegna örorku eða andláts foreldra þeirra. Ekki væri heimild í lögum til að greiða barnalífeyri með börnum vegna örorku fósturforeldra. Bréf þess efnis hafi verið sent kæranda þann 14. október 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. maí 2016. Með bréfi, dags. 11. júlí 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 21. júlí 2016, þar sem óskað var frávísunar málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með tölvupósti þann 2. ágúst 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti sama dag. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 4. ágúst 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærandi hafi ítrekað sótt um barnalífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins en fengið synjun á þeirri forsendu að hún sé fósturaðili. Kærandi greinir frá því að hún fari með fulla forsjá. Hún hafi aldrei fengið neitt greitt frá foreldrum með drengnum nema meðlög. Kærandi óskar endurskoðunar.   

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að ákvörðun hafi verið tekin um að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris þann 14. október 2014. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. maí 2016.

Einnig segir að kærandi hafi sent fyrirspurn í gegnum vef Tryggingastofnunar ríkisins þann 1. febrúar 2016. Þar komi fram að kærandi óski eftir að fá meðlag greitt með B. Kæranda hafi verið svarað með tölvupósti þann 5. febrúar 2016 þar sem fram komi að stofnunin hafi þegar hafið að greiða henni meðlag með drengnum frá föður og barnalífeyri vegna örorku móður sem ígildi meðlags. Ekki hafi verið um formlega umsókn að ræða frá kæranda og því engin formleg ákvörðun tekin sem sé kæranleg til úrskurðarnefndar. Engin formleg ákvörðun hafi verið tekin varðandi barnalífeyris- eða meðlagsgreiðslur til kæranda síðan 2014.

Óskað er frávísunar málsins frá úrskurðarnefnd velferðarmála með vísan til framangreinds.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu óskar kærandi endurskoðunar úrskurðarnefndar velferðarmála á afgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins á umsóknum hennar um barnalífeyri. Af gögnum málsins verður ráðið að kæra lúti annars vegar að synjun Tryggingastofnunar um greiðslu barnalífeyris sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 14. október 2014, og hins vegar að afgreiðslu Tryggingastofnunar sem tilkynnt var kæranda með tölvupósti 5. febrúar 2016 vegna umsóknar hennar um barnalífeyri.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. maí 2016, en þá var kærufrestur vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. október 2014 löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar.

Í 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um málsmeðferð fyrir nefndinni og segir þar í 5. mgr. að um málsmeðferð hjá nefndinni að öðru leyti fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Kæra barst úrskurðarnefnd um einu ári og sjö mánuðum eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. október 2014 um synjun barnalífeyris lá fyrir. Þá liggur fyrir að í umræddri ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar og um tímalengd kærufrests. Að þessu virtu er þeim hluta kæru er lýtur að framangreindri ákvörðun vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála með vísan til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.  

Eins og fyrr greinir má ráða af gögnum málsins að kæra lýtur einnig að afgreiðslu Tryggingastofnunar sem tilkynnt var kæranda með tölvupósti í kjölfar umsóknar hennar um barnalífeyri með tölvupósti þann 5. febrúar 2016. Í tölvupóstinum kom fram að barnalífeyrir með börnum væri greiddur vegna örorku eða andláts foreldra þeirra. Ekki væri heimild í lögum til að greiða barnalífeyri með börnum vegna örorku fósturforeldra. Bréf þess efnis hafi verið sent kæranda þann 14. október 2014.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um stjórnvaldsákvarðanir er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af framangreindum tölvupósti frá Tryggingastofnun að í honum felist synjun um greiðslu barnalífeyris. Að mati nefndarinnar gefur orðlagið til kynna að stofnunin hafi verið að upplýsa kæranda um að stofnunin hefði þegar tekið afstöðu til þessa álitaefnis. Þá hefur Tryggingastofnun jafnframt byggt á því að engin formleg ákvörðun hafi verið tekin varðandi barnalífeyris- eða meðlagsgreiðslur til kæranda síðan 2014. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða í fyrrgreindum tölvupósti. Þegar af þeirri ástæðu er þeim hluta kæru er varða framangreindan tölvupóst einnig vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.  

Úrskurðarnefnd telur tilefni til að benda kæranda á að hún geti sótt um greiðslu barnalífeyris að nýju hjá Tryggingastofnun ríkisins telji hún skilyrði greiðslnanna uppfyllt.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn