Hoppa yfir valmynd
1. september 2016 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Nýtt skipurit innanríkisráðuneytisins í gildi í dag

Nýtt skipurit innanríkisráðuneytisins tekur gildi í dag, 1. september 2016, og eru skrifstofur ráðuneytisins nú sjö. Skipulagi og nöfnum skrifstofanna hefur verið breytt og málaflokkar og verkefni færð á milli skrifstofa. Breytingarnar hafa verið í undirbúningi um nokkurt skeið en eldra skipurit er frá stofnun ráðuneytisins 1. janúar 2011.

Skrifstofur innanríkisráðuneytisins eru þessar:

  • Skrifstofa yfirstjórnar
  • Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga
  • Lagaskrifstofa
  • Skrifstofa almanna- og réttaröryggis
  • Skrifstofa sveitarfélaga og réttinda einstaklinga
  • Skrifstofa samgangna
  • Skrifstofa rafænna samskipta

Þá er gert ráð fyrir því að komið verði á fót þverfaglegum teymum sem starfa munu tímabundið þvert á skrifstofur eftir því sem verkefni krefjast hverju sinni. Helstu verkefnasvið hverrar skrifstofu eru eftirfarandi:

Skrifstofa yfirstjórnar – skrifstofustjóri Pétur U. Fenger

Skrifstofan fer með öll innri mál ráðuneytisins s.s. málefni er varða dagskrá ráðherra, rekstrarmál, gæða- og öryggismál, mannauðsmál, upplýsingamiðlun og alþjóðasamstarf. Skrifstofan hefur eftirlit með verkefnaáætlunum, annast sértækar og almennar greiningar vegna málefna ráðuneytisins og fylgist með starfi verkefnahópa sem settir eru á fót og vinna þvert á ráðuneytið.

Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga – skrifstofustjóri Ingilín Kristmannsdóttir

Skrifstofan ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjármálaáætlunar og fjárlaga fyrir hönd ráðuneytisins. Hún hefur yfirsýn yfir stefnur og áætlanir ráðuneytisins og ber ábyrgð á samþættingu, samræmingu og gæðum stefna og áætlana. Skrifstofan ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni árangursstjórnunarsamninga og þjónustusamninga. Þá er umsjón með móttöku ráðuneytisins á ábyrgð skrifstofunnar.

Lagaskrifstofa – skrifstofustjóri Bryndís Helgadóttir

Skrifstofan tekur til meðferðar kærur sem berast ráðuneytinu sem æðra stjórnvaldi í flestum málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra og teknar eru ákvarðanir í þeim málum með úrskurði í flestum tilvikum. Undir skrifstofuna falla einnig málefni sem lúta að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs. Auk þess er skrifstofan ábyrg fyrir ýmsum öðrum málaflokkum, er tengiliður ráðuneytisins við Alþingi og umboðsmann Alþingis og er öðrum skrifstofum ráðuneytisins til ráðgjafar og aðstoðar eftir þörfum.

Skrifstofa almanna- og réttaröryggis – skrifstofustjóri Þórunn J. Hafstein

Skrifstofan hefur umsjón með þeim málaflokkum í íslenskri stjórnsýslu er varða mikilvæga þætti réttarvörslukerfisins þ.e.a.s. málefni löggæslu, ákæruvald og fullnustu og öryggi almennings s.s. almannavarnir og leit og björgun. Skrifstofan sinnir stefnumótun og úrlausn mála á málefnasviðinu, hefur umsjón með löggjöf, vinnur að því að stjórnsýsluframkvæmd sé í samræmi við lög og að markmið stefnumótunar ráðherra náist með skilvirkum og markvissum hætti.  

Skrifstofa sveitarfélaga og réttinda einstaklinga – skrifstofustjóri Hermann Sæmundsson

Meginhlutverk skrifstofunnar eru á sviði stefnumótunar í sveitarstjórnarmálum og mannréttindmálum. Undir skrifstofuna heyra réttindi einstaklinga, málefni trúfélaga og framkvæmd kosninga. Þá annast skrifstofan eftirlit og umsjón með stjórnsýslu og skipulagi sveitarfélaga og ríki í héraði.

Skrifstofa samgangna – skrifstofustjóri Sigurbergur Björnsson

Meginhlutverk skrifstofunnar er að vinna að stefnumótun og áætlunargerð á sviði samgöngumála í lofti, láði og legi. Skrifstofan hefur umsjón með löggjöf á málefnasviðinu og fylgist með því að hún taki til allra nauðsynlegra þátta er varða öryggi og umhverfi samfélagsins. Þá sinnir skrifstofan stjórnsýsluverkefnum og miðlar ýmsum upplýsingum varðandi málefnasviðið.

Skrifstofa rafænna samskipta – skrifstofustjóri Guðbjörg Sigurðardóttir

Skrifstofan fer með málefni sem varða rafræn samskipti í víðum skilningi. Skrifstofan vinnur að því markmiði að tengja fólk, byggðir og samfélög með öruggum, rafrænum samskiptum þar sem persónuverndar er gætt í hvívetna. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun, mótun löggjafar og innleiðingu gerða á viðkomandi málefnasviðum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum