Hoppa yfir valmynd
2. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lestur er ævilöng iðja

Læsissáttmáli Heimilis og skóla var kynntur við hátíðlega athöfn í Vallarskóla á Selfossi

Við athöfnina í Vallarskóla á Selfossi  í gær, 1. september, flutti Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra ávarp og þakkaði hið góða og öfluga samstarf sem ráðuneytið hefur átt við Heimili og skóla og taldi verkefnið lofa góðu. Ánægjulegt væri að sjá þann ávöxt sem átak í læsismálum væri að bera. Formaður Heimilis og skóla, Anna Margrét Sigurðardóttir lýsti tilurð verkefnisins og tilgangi, sem er að efla foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.

Þorsteinn Hjartarson fræðslustjóri sveitarfélagsins Árborgar greindi frá því sem Árborg hefur gert til að efla læsi barna og að þar væri samvinna við heimilin mikilvæg. Sveitarfélagið hefur sett sér læsisstefnu, líkt og kveðið er á um í þjóðarsáttmála og talaði Þorsteinn um að betra læsi barna og ungmenna væri svo sannarlega samvinnuverkefni allra. Nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga sáu um tónlistarflutning og sigurvegarar  Stóru upplestrarkeppninnar í Árborg, Hveragerði og Ölfus flutti ljóð.

Fjölbreyttur rýnihópur fagfólks sem vann að gerð Læsissáttmálans ásamt starfsfólki Heimilis og skóla. Honum fylgir fjölbreytt efni fyrir börn og fullorðna.

Kynningarfundir um Læsissáttmálann verða auglýstir verða á heimasíðu samtakanna, heimiliogskoli.is, á Facebook og víðar.


Haustið 2015 undirrituðu fulltrúar Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, mennta- og menningarálaráðherra og fulltrúar allra sveitarfélaga landsins þjóðarsáttmála um læsi með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Eitt af meginverkefnum Heimilis og skóla í því samhengi var að útbúa Læsissáttmála fyrir foreldra og innleiða hann í skóla landsins. Er það liður í því að ná markmiðum Hvítbókar um umbætur í menntun þar sem ætlunin er að 90% (úr 79%) grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri og 60% nemenda ljúki námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma (úr 44%). Á næstu vikum og mánuðum mun starfsfólk Heimilis og skóla kynna sáttmálann og dreifa honum, og haldnir verða hátt í 50 kynningarfundir fyrir foreldra um land allt.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum