Hoppa yfir valmynd
8. september 2016 Forsætisráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum samþykkt á Alþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Alþingi hefur samþykkt tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019.

Framkvæmdaáætlunin er lögð fyrir Alþingi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna á karla. Þetta er sjötta framkvæmdaáætlun íslenskra ríkisstjórna sem hafa að markmiði að vinna að markmiðum jafnréttislaga og er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Áætlunin er byggð á tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón var höfð af umræðum á síðustu tveimur jafnréttisþingum og skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013-2015.

Eins og fjallað er um í athugasemdum með þingsályktunartillögunni ríkir hér á landi formlegt kynjajafnrétti og á undanförnum áratugum hafa verið stigin stór skref til að jafna stöðu kynjanna. Rúm 100 ár eru liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt og kjörgengi til Alþingis og á þessu ári eru fjörutíu ár frá setningu fyrstu jafnréttislaganna. Til framfaraskrefa eru nefnd aukin samfélagsleg völd kvenna m.a. á Alþingi og í sveitarstjórnum, lagabreytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnun fyrirtækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali: „En víða er mikið verk að vinna. Aðgreining starfa í sérstök karla- og kvennastörf á stóran þátt í launa- og aðstöðumun kynjanna og leiða má líkum að því að aðgreining milli kynja hefjist strax á leikskólastigi. Hún er síðan enn til staðar í mismunandi námsvali á framhalds- og háskólastigi og að lokum í atvinnulífinu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að uppræta úreltar staðalmyndir sem virðast enn vera miklir örlagavaldar í lífi og starfi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.“

Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og eru þar kynnt 21 verkefni til framkvæmda á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti í framkvæmdaáætluninni. Nefna má átak um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Einnig er gerð tillaga um úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála þar sem kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýslu jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi.

Miðað er við að á gildistíma áætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja og árangur þeirra metinn. Lögð er áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST-85:2012 og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Í framkvæmdaáætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmiðiðið er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Ríkisstjórnin leggur enn fremur áherslu á verkefni sem hafa að markmiði að útrýma kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Kynbundið ofbeldi er lýðheilsuvandamál en afleiðingar þess fyrir hvert samfélag eru efnahagslegar, pólitískar, félags- og heilsufarslegar. Til að ná árangri í að uppræta kynbundið ofbeldi er nauðsynlegt að ólíkar fagstéttir vinni saman, að vandinn sé greindur á fyrstu stigum og því nauðsynlegt að stjórnvöld hverju sinni vinni samkvæmt nákvæmum aðgerðaáætlunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum