Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðgerðir til að draga úr notkun plastpoka kynntar

Frá undirritun samningsins í dag. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, undirrituðu í dag samning sem hefur það að markmiði að draga úr notkun léttra burðarplastpoka. Þá hefur ráðherra gefið út aðgerðaáætlun í sama tilgangi.

Samningur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Samtaka verslunar og þjónustu felur í sér að samtökin munu hafa forgöngu um að verslanir dragi markvisst úr notkun léttra burðarplastpoka. Er markmiðið að fyrir árslok 2019 verði notkunin hér á landi ekki meiri en 90 plastpokar á einstakling á ári og að sú tala verði komin niður í 40 árið 2025. Ekki eru í dag til nákvæmar tölur um magn burðarplastpoka á Íslandi en starfshópur sem starfaði fyrri hluta þessa árs áætlaði að hver einstaklingur hérlendis noti um 105 burðarplastpoka árlega. Unnið er að því að bæta tölfræðina.

Samtök verslunar og þjónustu munu stuðla að því að umtalsverðum hluta tekna af sölu burðarplastpoka verði varið í kynningu til að draga úr notkun þeirra, stofnaður verður sérstakur framkvæmdahópur verslunarinnar og Umhverfisstofnunar til að vinna að kynningu og fræðslu fyrir almenning og lífbrjótanlegir innkaupapokar verða kynntir sérstaklega.

Aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gildir fyrir tímabilið 2016 – 2018 og inniheldur fjórtán skilgreind verkefni sem miða að því að draga úr notkun plastpoka hérlendis. Áætlunin er í samræmi við tillögur starfshóps sem skipaður var í lok janúar á þessu ári og skilaði ráðherra lokaskýrslu sinni í júní sl.

Aðgerðaáætlun til að draga úr notkun plastpoka 2016 -2018 (pdf skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum