Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynning á fjórum frumvörpum um tjáningar- og upplýsingafrelsi

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn drög að fjórum lagafrumvörpum sem unnin voru á vegum stýrihóps sem falið var að vinna að framgangi þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn drög að fjórum lagafrumvörpum sem unnin voru á vegum stýrihóps sem falið var að vinna að framgangi þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, sem samþykkt var á 138. löggjafarþingi Alþingis (2009-2010). Samkvæmt þingsályktuninni var mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars falið að gera úttekt á lagaumhverfinu og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi.

Frumvörpin sem um ræðir eru:

1. Frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003 og lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 (afnám gagnageymdar)

2. Frumvarp um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (takmörkun á ábyrgð hýsingaraðila)

3. Frumvarp til nýrra laga um ærumeiðingar

4. Frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (verndarandlag hatursáróðurs).

1.  Í drögum að frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003 og lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 er lagt til að ákvæði fjarskiptalaga um gagnageymd í 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga verði fellt brott. Tilefnið er dómur Evrópudómstólsins frá 8. apríl 2014 þar sem felld var úr gildi tilskipun 2006/24/EB um varðveislu fjarskiptaupplýsinga þar sem hún taldist ganga gegn meðalhófsreglu Evrópuréttarins.

2.  Í drögum að frumvarpi um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu er lagt til að 2. tl. 1. mgr. 14. gr. laganna um meint brot á höfundarétti verði fellt brott auk annarra ákvæða laganna sem tengjast því beint. Markmiðið er að tryggja betur vernd tjáningarfrelsis á netinu og stuðla að því að viðbrögð við brotum á höfundarétti verði fremur í höndum sýslumanna og dómstóla.

3.  Í drögum að frumvarpi til nýrra laga um ærumeiðingar er lagt til að ákvæði laga um ærumeiðingar verði færð úr almennum hegningarlögum í sérlög á einkaréttarsviðinu. Markmið lagabreytingarinnar er að löggjöf um ærumeiðingar endurspegli betur réttarástand á þessu sviði og réttarþróun hér á landi og í Evrópu sem orðið hefur meðal annars fyrir tilstilli Mannréttindadómstóls Evrópu og starfs Evrópuráðsins. Orðalag ákvæðanna í núgildandi lögum er mjög fjarri hinu raunverulega réttarástandi.

4.  Í drögum að frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er lögð til orðalagsbreyting á 233. gr. a almennra hegningarlaga sem fjallar um refsiviðurlög vegna hatursorðræðu.

 Almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir við efni frumvarpanna til loka september nk. – sjá nánar.

 

Auk þessara lagafrumvarpa hafði stýrihópurinn áður haft forgöngu um samningu lagafrumvarps um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (um þagnarskyldu). Með því frumvarpi er leitast við að einfalda og samræma lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna og skýra skyldur þeirra varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga. Það málefni heyrir undir forsætisráðuneyti og frumvarpið hefur verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum