Hoppa yfir valmynd
9. september 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna yfirlýsingar um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum

Ríkisstjórn Íslands hefur eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands ákveðið að ekki sé tilefni til þess að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum.

Yfirlýsing um að ríkið ábyrgðist allar innstæður var gefin eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Innlendar innlánsstofnanir standa í dag traustum fótum, hvað snertir eigið fé, fjármögnun, lausafé eða jafnvægi í rekstri. Þá hafa ýmsar viðamiklar breytingar orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á síðustu árum frá setningu neyðarlaganna árið 2008. Þar má nefna breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2010 og breytingar á lagaumhverfi fjármálamarkaða, m.a. með stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. Þá hafa nýjar reglur tekið gildi um eigið fé bankanna þar sem gerðar eru verulega auknar kröfur um eigið fé og gæði þess.

Einnig hafa orðið breytingar á lögum um innstæðutryggingar þar sem sú vernd sem innstæðutryggingakerfið veitir er afmörkuð skýrar með áherslu á að vernda innstæður almennings.

Áfram er unnið að því að styrkja nauðsynlegt öryggisnet um fjármálamarkaði og fjölga úrræðum opinberra eftirlitsaðila og stjórnvalda til þess að grípa tímanlega inn þegar þörf krefur. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu nýs Evrópuregluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja sem gefur stjórnvöldum heimildir til inngripa í rekstur slíkra fyrirtækja og auðveldar þeim að koma innstæðum almennings í skjól ef aðstæður krefjast. Einnig er unnið að innleiðingu nýrra Evrópureglna um innstæðutryggingar sem munu styðja við regluverk um skilameðferð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum