Hoppa yfir valmynd
12. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Skrifuðu undir árangursstjórnunarsamning

Jónas Guðmundsson og Ólöf Nordal skrifuðu undir árangursstjórnunarsamninginn. - mynd
Embætti sýslumannsins á Vestfjörðum og innanríkisráðuneytið hafa gert með sér árangursstjórnunarsamning þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur ráðuneytisins og sýslumanns. Samningurinn er til fimm ára og undir hann skrifuðu Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum.

Tilgangur samningsins er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli innanríkisráðuneytisins og embættis sýslumannsins á Vestfjörðum. Með samningnum á að skerpa áherslur um stefnumótun, verkefni, áætlunargerð og mat á árangri af starfsemi embættisins. Samningnum er einnig ætlað að styrkja beitingu árangursstjórnunar sem stýritæki hjá embættinu.

Í samningnum eru settir mælikvarðar og viðmið í ýmsum flokkum svo sem í stjórnsýslu og þjónustu, mannauði og fjármálum. Má meðal annars nefna að embættið skal hafa forgöngu um reglulegt samráð við sveitarfélög um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæminu og leitast verður við að hafa reglulegar þjónustukannanir. Einnig hefur embættið umsjón með vefsíðu sýslumannsembættanna og tekur þátt í samræmingu verkferla í einstökum málaflokkum embættanna. Þá kveður samningurinn á um gagnkvæmar skyldur og ábyrgð samningsaðila. Sem fyrr segir gildir hann til fimm ára en hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum