Hoppa yfir valmynd
13. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Kynnti sér skaðaminnkandi úrræði fyrir fíkniefnaneytendur í Kaupmannahöfn

Áfengis-og vímuvarnir
Áfengis-og vímuvarnir

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra heimsótti í dag Mændendens Hjem í Kaupmannahöfn sem er athvarf fyrir heimilislausa og kynnti sér skaðaminnkandi úrræði fyrir fíkniefnaneytendur, meðal annars sérstök neyslurými. Ráðherra er þessa dagana í Danmörku þar sem hann situr 66. þing Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Mændenes Hjem er sjálfseignarstofnun sem sér heimilislausu utangarðsfólki í Kaupmannahöfn fyrir margvíslegum félagslegum úrræðum og heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra kynnti sér starfsemina auk þess sem hann heimsótti neyslurýmið “The Cloude“ þar sem fíkniefnaneytendur geta sprautað sig og neytt vímuefna á öruggan hátt.

Ivan Christensen, framkvæmdastjóri Mændenes hjem, og Rasmus Koberg Christiansen, umsjónarmaður neyslurýmanna, fylgdu ráðherra í heimsókninni, sögðu frá hugmyndafræðinni að baki skaðaminnkandi úrræðum og hvernig henni er ætlað að nálgast vanda fíkniefnaneytenda með það að markmiði að lágmarka samfélagslegan skaða.

Nýlega lagði heilbrigðisráðherra fram á Alþingi skýrslu um leiðir til að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í íslensku samfélagi, í samræmi við ályktun Alþingis frá í maí 2014, þar sem ríkisstjórninni var falið að „endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum