Hoppa yfir valmynd
16. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr fjölþjóðlegur samstarfsvettvangur í menntamálum

Tveggja daga stofnfundi Atlantic Rim Collaboratory lauk í Reykjavík í gær. Ráðherrar menntamála, fulltrúar kennarasamtaka, menntamálastofnana, sveitarfélaga, embættismenn og sérfræðingar frá Finnlandi, Skotlandi, Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Aruba og Íslandi tóku þátt. Hvatamaður að stofnun þessa samráðsvettvangs er Andy Hargreaves prófessor við Boston háskólann í Bandaríkjunum. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra var gestgjafi stofnfundarins.

Markmið fundarins var að bera saman þróun menntamála landanna, skilgreina sameiginleg gildi í menntun, miðla reynslu, stuðla að fagmennsku í skólastarfi og mynda samtarfsvettvang landanna. Samstarfið snýr m.a. að því að þróa raunhæfar aðferðir til að koma á kerfisbreytingum í menntamálum, einkum til að efla velferð og andlegt heilbrigði, auka jafnrétti í menntun og styrkja skóla margbreytileikans.

Á fundinum fór einnig fram margvísleg umræða um áskoranir til framtíðar í menntamálum og fram kom eindreginn vilji til að halda áfram að þróa þetta samstarf og vinna að afmörkuðum verkefnum í því skyni. Unnið verður úr niðurstöðum fundarins sem birtast munu á vefsíðu Atlantic Rim Collaboratory á næstu vikum. 

Á dagskrá fundarins voru m.a. örfyrirlestrar frá sex heimsþekktum sérfræðingum í stefnumörkun og þróun menntunar og menntakerfa. Fyrirlestrana má skoða með því að smella á tenglana hér fyrir neðan.

Andy Hargreaves, prófessor við Boston háskóla, ráðgjafi og einn af stofnendum Atlantic Rim Collaboratory, talaði um mikilvægi þess sem hann kallar djúp samvinna og leiðtogahæfni:

https://www.youtube.com/watch?v=JyuTujJMgho 

Ken Robinson, rithöfundur, fyrirlesari og ráðgjafi, talaði um skapandi skóla og nauðsyn þess að beita nýrri nálgun í menntun:

https://www.youtube.com/watch?v=fAb9PMs8bEg

Pak Tee Ng, prófessor við Nanyang tækniháskólann í Singapúr velti því meðal annars fyrir sér hvort nemendur læri meira ef við kennum minna:

https://www.youtube.com/watch?v=Th52Xzkr6Yo 

Vicky Colbert, stofnandi og framkvæmdastjóri Fundación Escuela Nueva í Kólumbíu, talaði m.a. um nýsköpun úr grasrótinni, samstarf skóla og atvinnulífs og hlutverk kennarans á 21. öldinni:
(tengill kemur síðar)

Jeannie Oakes, prófessor í menntunarfræðum við Kaliforníuháskóla, talaði um fjóra mikilvæga þætti sem nauðsynlegir eru þegar farið er í kerfisbreytingar:

https://www.youtube.com/watch?v=YGq2mbMq5ow 

Pasi Sahlberg, prófessor við Háskólann í Helsinki og ráðgjafi í menntamálum, velti því fyrir sér hvort hægt væri að efla bæði jafnræði, og velferð og góðan námsárangur á sama tíma, eða hvort eitt útiloki annað:

https://www.youtube.com/watch?v=3VX0m-BcMpY 


 

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum