Hoppa yfir valmynd
16. september 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar á Degi íslenskrar náttúru

Þáttastjórnendur Samfélagsins á Rás 1 ásamt ráðherra. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti í dag á Degi íslenskrar náttúru, útvarpsþættinum Samfélaginu sem er á dagskrá Rásar 1 á RÚV hljóðvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hún Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en hana hlutu annars vegar hjónin Kolbrún Ulfsdóttir og Jóhannes Haraldsson á Hótel Rauðuskriðu í Aðaldal og hins vegar Stella Guðmundsdóttir í Heydal í Mjóafirði.

Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að viðurkenningin sé veitt fyrir almenna umfjöllun Samfélagsins um mál sem snerta íslenska náttúru. „Samfélagið á Rás 1, RÚV hljóðvarpi, hlýtur fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2016 fyrir að gefa íslenskri náttúru rödd á öldum ljósvakans með því að gera umhverfismál að þungamiðju í ritstjórnarstefnu sinni. Umsjónarmenn þáttarins, þau Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson, hafa ásamt sérfræðingum, sem þau hafa fengið til liðs við sig unnið framúrskarandi starf við að fjalla um náttúruvernd í víðum skilningi og benda á ógnir sem steðja að náttúrunni, en einnig að tengja þá umfjöllun öðrum málefnum, sem eru efst á baugi, og vekja hlustendur til vitundar um hve mikilvæg umhverfismál eru í daglegu lífi þeirra.“

Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að þau Kolbrún og Jóhannes hafi komið Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins fyrst íslenskra hótela og fyrsti gististaðurinn utan Reykjavíkur. Síðar hafi það fengið gullmerki Vakans, sem er umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hafi drifið þau áfram og sé litið til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi.

Stella hljóti viðurkenninguna m.a. fyrir að hafa skapað náttúruvænt ferðaþjónustufyrirtæki á afskekktu svæði sem annars hefði verið hætt við að legðist í auðn. Þannig hafi hún stuðlað að því að dreifa álaginu sem af fjölgun ferðamanna hlýst með því að skapa og bjóða upp á nýjan áfangastað í íslenskri náttúru. Af nærgætni og virðingu fyrir umhverfinu hafi hún opnað augu ferðamanna fyrir undrum náttúrunnar í þessum ævintýradal.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar verðlaunahöfum öllum innilega til hamingju.

Handhafar náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti ásamt ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum