Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Greining á þeim hópum sem búa við sára fátækt á Íslandi

Velferðarvaktin
Velferðarvaktin

Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti í gær á fundi ríkisstjórnarinnar greiningarskýrslu sem Hagstofa Íslands vann að beiðni Velferðarvaktarinnar og fjallar um þá sem búa við sára fátækt á Íslandi. Byggt var á skilgreiningu sem evrópska hagstofan Eurostat þróaði til að bregðast við vissum annmörkum tekjumælinga á fátækt sem nánar er fjallað um í skýrslunni.

Skýrslan er þróunarverkefni sem byggist á samningi milli Hagstofunnar og Velferðarvaktarinnar frá síðasta ári. Tilgangurinn var að meta að hvaða marki sé hægt að nota gögn úr Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands til að bera kennsl á þá hópa sem búa við sára fátækt í íslensku samfélagi. Einnig er horft til þess að sú greining sem fram kemur í skýrslunni geti nýst við frekari stefnumótun stjórnvalda.

Velferðarvaktin lagði til grundvallar verkefninu skilgreiningu á sárafátækt sem samsvarar þeim hópi sem Hagstofan mælir að búi við verulegan skort á efnislegum gæðum. Í skýrslunni kemur fram að tíðni sárafátæktar hækkaði í kjölfar hrunsins. Árið 2008 var hlutfallið 0,9%, eða á bilinu 0,4–1,4%. Árið 2012 mældist sárafátækt mest, 3% eða á bilinu 2,1–3,8%. Eftir 2012 lækkaði hlutfall sárafátækra aftur og árið 2015 mældust 1,3% sárafátæk, eða á bilinu 0,7–1,8%.

Staða á húsnæðismarkaði og heilsufar lykilþættir

Greining gagnanna bendir til þess að staða fólks á húsnæðismarkaði og heilsufar séu lykilþættir sem spá fyrir um hvort fólk búi við sárafátækt. Að auki benda niðurstöður til þess að einhleypt barnlaust fólk og einstæðir foreldrar og börn þeirra séu í meiri hættu en aðrir á að lenda í sárafátækt. Hafa verður í huga að tölfræðileg sambönd segja ekki til um orsakasamband. Niðurstöður benda þó til að horfa verði til samspils húsnæðisstöðu, heilsufars og heimilisgerðar við stefnumótun sem lýtur að sárafátækt.

Þeir sem búa við sárafátækt samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hér er lögð til grundvallar eru þeir sem búa á heimili þar sem fernt af eftirfarandi á við:

  • Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum tólf mánuðum.
  • Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
  • Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
  • Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
  • Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
  • Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
  • Hefur ekki efni á þvottavél.
  • Hefur ekki efni á bíl.
  • Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.

  Skýrsla um sárafátækt - Hagstofan 2016 fyrir Velferðarvaktina

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum