Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 15/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2016

Miðvikudaginn 21. september 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015, en með því mati var fyrra örorkumat kæranda framlengt og henni veittur tímabundinn örorkustyrkur frá 1. nóvember 2015 til 31. mars 2016.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 6. nóvember 2015. Með örorkumati, dags. 25. nóvember 2015, var fyrra örorkumat hennar um örorkustyrk framlengt til 31. mars 2016. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 9. desember 2015 og var hann veittur með bréfi, dags. 15. desember 2015. Í rökstuðningnum kemur meðal annars fram að hugsanlegt hafi þótt að færni kæranda hefði versnað og því hafi þótt rétt að leggja grunn að nýju örorkumati. Örorkumatið hafi verið framlengt óbreytt til að veita svigrúm og kæranda sendur spurningalisti vegna færniskerðingar með það í huga að fá nýja skoðun með tilliti til staðals og endurmeta örorkuna að því loknu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. janúar 2016. Með bréfi, dags. 28. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 9. febrúar 2016, og var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. febrúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og nýtt mat verði gert þar sem ekki hafi legið fyrir öll gögn málsins áður en ákvörðun hafi verið tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi gleymt að skila inn spurningalista vegna færniskerðingar og hún telji það ekki góða stjórnsýslu að ákvörðun sé tekin áður en öll nauðsynleg gögn liggi fyrir.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið metinn örorkustyrkur undanfarin ár en þar sem hugsanlegt hafi þótt að færni hennar hafi versnað hafi stofnuninni þótt rétt að leggja grunn að nýju örorkumati. Örorkumat hafi því verið framlengt óbreytt til 31. mars 2016 til þess að veita svigrúm til þess að kærandi gæti skilað inn spurningalista vegna færniskerðingar og fá nýja skoðun með tilliti til staðals og endurmeta örorku hennar að því loknu. Spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 2. desember 2015, hafi borist stofnuninni og umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur sé í bið eftir því að hún komist í skoðun með tilliti til staðals.

Örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 25. nóvember 2015, um framlengingu óbreytts örorkumats hafi eingöngu verið bráðabirgðaákvörðun sem hafi falið í sér að greiðslur hafi ekki stöðvast samkvæmt eldra örorkumati frá 1. nóvember 2015, heldur héldi kærandi óbreyttum greiðslum fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. mars 2016 á meðan vinna við endurmat á örorku hennar færi fram. Því krefjist stofnunin frávísunar málsins frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um að ræða ágreining um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta sem heyri undir úrskurðarnefndina.

IV.  Niðurstaða

Kært er örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið greiddan örorkustyrk frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. maí 2008. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 6. nóvember 2015. Með örorkumati, dags. 25. nóvember 2015, var fyrra örorkumat hennar um örorkustyrk framlengt til 31. mars 2016.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. núgildandi 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar, er kveðið á um að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi úrskurð á mál rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta samkvæmt lögunum. Í 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 er kveðið á um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í 5. mgr. 7. gr. laganna er vísað til þess að  um málsmeðferð hjá nefndinni að öðru leyti fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá  hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.“

Samkvæmt gögnum málsins var með hinni kærðu ákvörðun, dags. 25. nóvember 2016, einungis um að ræða tímabundna framlengingu á örorkustyrk á meðan ekki var búið að meta kæranda að nýju með tilliti til staðals, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tilgangurinn með matinu var að tryggja að greiðslur til kæranda myndu ekki stöðvast þangað til endanlegt mat á mögulegum rétti kæranda til örorkulífeyris færi fram. Fram kemur í rökstuðningi Tryggingastofnunar frá 15. desember 2015 að örorka kæranda yrði endurmetin að lokinni skoðun með tilliti til staðals. Ekki var því um að ræða synjun á umsókn kæranda um örorkulífeyri. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 25. nóvember 2016 hafi ekki bundið enda á mál kæranda og sé þar af leiðandi ekki kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum