Hoppa yfir valmynd
22. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráð um drög að frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum – eintakagerð til einkanota

Markmið frumvarpsins er meðal annars að bæta réttarstöðu höfunda vegna tjóns sem hlýst af eintakagerð til einkanota af verkum þeirra og hún verði sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lokið við drög frumvarpi til laga um breytingar á höfundalögum nr. 73/1972, með áorðnum breytingum er varðar eintakagerð til einkanota.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga er einstaklingum heimilt að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar eiga höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Með því að höfundalög heimila umrædda eintakagerð hvílir sú þjóðréttarlega skuldbinding á íslenska ríkinu að sjá til þess að höfundar og aðrir rétthafar útgefinna verka sem afrituð eru til einkanota fái skaðabætur fyrir það tjón sem þeir verða fyrir af þessum sökum, sbr. tilskipun 2001/29/EB. Til útskýringar þá felst tjón höfunda m.a. í því að þeir verða af ákveðnum tekjum vegna eintakagerðarinnar. Fyrir vikið selja þeir færri eintök af útgefnum verkum sínum og geta einnig misst af tækifærum til að selja frekari útgáfu- og afnotarétt á verkunum.

Innheimta höfundaréttargjalds náði hámarki árið 2003 (104 millj. kr.) en frá árinu 2007 hafa tekjur af höfundaréttargjaldi farið lækkandi eru núna komnar niður fyrir 8 millj. kr. á ári. Samdráttinn í tekjum má rekja til þess að dregið hefur úr innflutningi á auðum CD-R og DVD-R diskum í kjölfar breyttra aðferða við stafræna eintakagerð. Aðrir afritunarmiðlar eins og SD-minniskort, USB-minnislyklar og flakkarar hafa tekið við því hlutverki sem auðir skrifanlegir diskar gegndu áður, auk þess sem afritun fer að einhverju leyti fram í innra minni í farsímum, spjaldtölvum og einkatölvum. Þessir miðlar og tæki bera hins vegar ekki höfundaréttargjald skv. gildandi lögum og reglugerð um innheimtu höfundaréttargjalds nr. 125/2001.

Eins og nánar er rakið í frumvarpinu hefur sú leið verið farin í Bretlandi, Finnlandi, Noregi og á Spáni að sanngjarnar bætur til höfunda greiðast samkvæmt fjárheimild í fjárlögum. Þessi aðferð hefur til að mynda þá kosti að ekki þarf að breyta reglum um innheimtu höfundaréttargjalds í samræmi við þróun í tækni við hljóð- og myndupptöku á hverjum tíma og umsýslukostnaður samtaka höfundaréttarfélaga verður minni, jafnframt því sem tollyfirvöld losna við þá umsýslu sem fylgir innheimtu gjaldsins hjá innflytjendum. Samtök höfundaréttarfélaga þurfa þá heldur ekki að endurgreiða innheimt höfundaréttargjöld og veita undanþágur frá greiðslu gjaldsins.

Frumvarpsdrögin fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps, sem fyrirhugað er að ráðherra leggi fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 7. október 2016. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Frumvarp til breytinga á höfundalögum - eintakagerð til einkanota“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum