Hoppa yfir valmynd
26. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kosningavakning: lýðræðis- og kosningavitund ungmenna

Verkefninu Kosningavakning: #égkýs var ýtt úr vör í dag, en markmið þess er að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Samband íslenskra framhaldsskólanemenda (SÍF), Landssamband æskulýðsfélaga (LÆF) í samstarfi við innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samband íslenskra sveitarfélaga og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands ásamt umboðsmanni barna standa fyrir verkefninu.

Verkefninu Kosningavakning: #égkýs var ýtt úr vör í dag, en markmið þess er að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Samband íslenskra framhaldsskólanemenda (SÍF), Landssamband æskulýðsfélaga (LÆF) í samstarfi við innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands ásamt umboðsmanni barna standa fyrir verkefninu. 

Framundan eru Alþingiskosningar á Íslandi og af því tilefni vilja stjórnvöld hvetja grunn- og framhaldsskóla til að efla lýðræðisvitund barna og ungmenna með upplýstri umræðu um kosningar og lýðræði og mikilvægi þess að hver einstaklingur nýti sér kosningaréttinn.

Í ávarpi sínu í dag talaði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, m.a. um að aldrei mætti taka lýðræðinu sem sjálfgefnu. Lýðræðishefð sé ekki sjálfssprottin heldur er nauðsynlegt að viðhalda henni, kenna og miðla. Herferð sem þessi hvetji til dýpra samtals um lýðræðið og á þann máta eflist lýðræðisvitundin. Jafnframt áréttaði ráðherra að til þess að sátt myndi ríkja um svo mikilvægt verkefni til framtíðar væri brýnt að vandað yrði til verka við framkvæmd þess.

Einn liður í verkefninu eru skuggakosningar framhaldsskólanema sem fara fram þann 13. október næstkomandi. Þær eru settar upp eins og almennar kosningar og er ætlað að æfa lýðræðið í reynd. Ungmenni á aldrinum 16-21 árs geta tekið þátt í kosningunum og hafa þegar 22 af 30 framhaldsskólar staðfest þátttöku. Niðurstöður skuggakosninganna verða ekki opinberaðar fyrr en eftir að alþingiskosningum lýkur þann 29. október.

Aðstandendur verkefnisins opnuðu í dag vefsvæðið egkys.is en þar má nálgast allar upplýsingar um verkefnið, leiðbeiningar um framkvæmd skuggakosninganna, tillögur að lýðræðisverkefnum fyrir kennara og upplýsingar um framboðin. 
Fólk er hvatt til þess að taka þátt í umræðunni með því að nota myllumerkið #egkys.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum