Hoppa yfir valmynd
27. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ríkisendurskoðun ítrekar athugasemdir varðandi sjúkraflug

Móta þarf framtíðarstefnu í sjúkraflutningum og vanda betur til útboða sjúkraflugs. Þetta kemur fram nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um sjúkraflug á Íslandi þar sem stofnunin ítrekar fyrri athugasemdir sínar þessa efnis.

Ríkisendurskoðun fjallaði um fyrirkomulag sjúkraflugs á Íslandi, umfang þess og þróun, í skýrslu sem stofnunin birti árið 2013. Í athugasemdum var annars vegar fjallað um útboð sjúkraflugs og stefnumótun á þessu sviði, en þessir þættir eru á ábyrgðarsviði velferðarráðuneytisins. Hins vegar var fjallað um um mögulega aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi hér á landi en sú umfjöllun snýr að innanríkisráðuneytinu.

Eins og fram kemur í viðbrögðum velferðarráðuneytisins við eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar hefur verið ákveðið að gera kröfulýsingu sem verði hluti samnings um sjúkraflug. Tímalína útboða verður ákveðin fljótlega í samráði við Sjúkratryggingar Íslands með það að markmiði að tryggja vandaðan undirbúning á öllum stigum og möguleika umbjóðenda til að undirbúa tilboð. Gert er ráð fyrir að nýr samningur um sjúkraflug taki gildi 1. janúar 2018.

Varðandi stefnumótun í sjúkraflugi bendir velferðarráðuneytið á að með reglugerð um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga nr. 262/2011 hafi umgjörð um málaflokkinn verið efld til muna og á grundvelli þeirrar reglugerðar starfar m.a. fagráð sjúkraflutninga sem hefur það hlutverk að veita ráðuneytinu ráðgjöf um fagleg málefni sem varða sjúkraflutninga. Auk þessa er fjallað um sjúkraflutninga í drögum að heilbrigðisstefnu sem nýlega var birt til umsagnar. Loks bendir velferðarráðuneytið á að í nýjum lögum um opinber fjármál sé mikil áhersla lögð á stefnumótun í öllum málaflokkum. Ráðuneytið muni við framkvæmd þeirra laga skoða sérstaklega hvort skerpa þurfi á einhverjum þáttum í stefnumótun vegna sjúkraflutninga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum