Hoppa yfir valmynd
27. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráð um drög að reglugerð um heimildir fjölmiðlaveitna til útsendinga á stuttum myndskeiðum frá viðburðum sem vekja mikinn áhuga meðal almennings

Markmiðið með setningu reglugerðarinnar er að innleiða að fullu ákvæði 15. gr. tilskipunar 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðla.

Í 2. tölulið þess frumvarps sem varð að fjölmiðlalögum nr. 38/2011 var mælt fyrir um breytingar á 15. gr. og 48. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, í því skyni að innleiða það sem nú er 15. gr. í hljóð- og myndmiðlatilskipun ESB (tilskipun 2010/13/EB). Þar er kveðið á um að fjölmiðlaveita, sem hefur einkarétt á sjónvarpsútsendingum frá innlendum og erlendum viðburðum sem vekja mikinn áhuga meðal almennings, skuli veita öðrum fjölmiðlaveitum með myndmiðlun og með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu aðgang að stuttum myndskeiðum að eigin vali frá viðkomandi sjónvarpsútsendingum.

Af hálfu evrópskra eftirlitsstofnana voru gerðar athugasemdir við hvernig efni 15. gr. tilskipunar 2010/13/EB væri leidd í íslensk lög. Til að bregðast við því var með lögum nr. 54/2013 um breytingar á lögum nr. 38/2011,  tveimur nýjum málsgreinum aukið við 45. gr. laga um fjölmiðla (6. og 7. mgr.) og sem eru efnislega samhljóða megin efnisatriðum í 15. gr. tilskipunar 2010/13/EB. Í því efni var farin sama leið og Danir, sbr. 3.-5. mgr. 90. gr. danskra útvarpslaga (Lov om radio- og fjernsynsvirksomhed). Önnur atriði í 15. gr. tilskipunarinnar ásamt ákvæðum um gjaldtöku o.fl. settu Danir í reglugerð (Bekendtgørelse om korte nyhedsuddrag fra begivenheder af stor interesse for offentligheden) og við gerð þessara draga að reglugerð var tekið mið af dönsku reglugerðinni.

Reglugerðardrögin fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegra draga að reglugerð, sem lögð verður fyrir ráðherra.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 15. október 2016. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina reglugerðarinnar, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Reglugerð um heimildir fjölmiðlaveitna til útsendinga á stuttum myndskeiðum“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum