Hoppa yfir valmynd
28. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðherrafundur Hvíta hússins um vísindi á Norðurslóðum

White House Arctic Science Ministerial Group - mynd
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra situr í dag ráðherrafund Hvíta hússins um vísindi á Norðurslóðum í boði ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Markmið fundarins er að efla samstarf ríkja um rannsóknir og vöktun á Norðurskauti jarðar.

Mennta- og menningarmálaráðherra situr í dag ráðherrafund Hvíta hússins um vísindi á Norðurslóðum í boði ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Vísindamálaráðherrum allra ríkja Norðurskautsráðsins er boðið til fundarins, auk ráðherra þeirra landa sem stunda umtalsverðar rannsóknir á Norðurslóðum. Alls er ráðherrum frá 24 ríkjum auk Evrópusambandsins boðið til fundarins.

Fjögur þemu eru til umfjöllunar á fundinum:

  • Í fyrsta lagi verður fjallað um þær breytingar á loftslagi og náttúru á Norðurslóðum sem talið er að muni hafa mikil áhrif bæði þar og annars staðar á jörðinni og þau úrlausnarefni sem vísindamenn standa frammi fyrir í þeim efnum. Hér verður fjallað um nauðsyn þess að efla þekkingu á breytingum á vistkerfi Norðurslóða og áhrifum þeirra á mannlíf þar. Verður meðal annars tekin fyrir bráðnun sífrera, hafíss og jökla auk áhrifa hlýnunar á vistkerfi.
  • Í öðru lagi verða leiðir til að efla vöktun á norðurskautinu ræddar og hvernig opna megi aðgang að gagnasöfnum sem til staðar eru í ríkjunum. Hér verður einkum fjallað um fjögur samstarfsverkefni sem þegar hefur verið hrint úr vör (SAON, MOSAic, YOPP og CBO). Þessi verkefni eru meðal annars um hvernig auka megi varanlega og samræmda vöktun á norðurskautinu, hvernig efla megi spár um umhverfisbreytingar og hvernig styrkja megi þátttöku almennings í vöktun.
  • Í þriðja lagi mun fundurinn fjalla um hagnýtingu rannsókna til að efla möguleika íbúa svæðisins til að bregðast við og aðlagast breytingum. Undir þessu þema verður m.a. fjallað um uppbyggingu innviða (s.s. breiðbands, hafna, bygginga, lestarkerfa og aðgangs að endurnýjanlegri orku) og aukna upplýsingagjöf til íbúa svæðisins, t.d. betri spár um veður og hafís.
  • Í fjórða lagi verður sjónum beint að því hvernig efla megi menntun á sviði vísinda, tækni, verk- og stærðfræði, jafnt innan sem utan norðurskautssvæðisins, til að styrkja möguleika íbúa til að takast á við framtíðina, taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku og til að efla sjálfbæra þróun. 

Unnið hefur verið að undirbúningi fundarins með fulltrúum þeirra ríkja sem sitja hann. Hér á landi var haft samráð við vísindamenn sem stunda rannsóknir sem tengjast norðurskauti jarðar á sviði jarðvísinda, loftlagsmála, líffræði og félagsvísinda. Gert er ráð fyrir að við lok fundarins verði gefin út sameiginleg yfirlýsing um aukið samstarf á sviði rannsókna á Norðurslóðum. Þá mun liggja fyrir kortlagning á þeim verkefnum sem þegar er unnið að á sviðinu og munu ráðherrarnir ræða hvernig byggja megi á þeim til að fleyta samstarfinu áfram. Einnig verður rætt um það hvort vilji ríkjanna standi til þess að fundir sem þessir verði haldnir með reglubundnum hætti, t.d. annað hvert ár.

Ljósmynd:

U.S. Coast Guard Petty Officer 2nd Class Connie Terrell.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum