Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Biophilia menntaverkefnið: Aukinn áhugi á skapandi nálgun í kennslu

Helstu niðurstöður verkefnisins sýna að Biophilia hefur haft jákvæð áhrif á kennsluaðferðir og greina má aukinn áhuga kennara, sem tóku þátt í því, á að beita skapandi aðferðum við kennslu

Þriggja ára formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Biophiliu menntaverkefnið lýkur í lok þessa árs. Verkefnið hefur verið á flugi í átta borgum á Norðurlöndunum undanfarin tvö ár og þriðjudaginn 4. október verður haldin ráðstefna, þar sem farið verður yfir helstu niðurstöður þess.

Verkefnið er mjög viðamikið: 33 skólar, 147 kennarar og 3454 nemendur hafa tekið þátt í því og hafa fulltrúar verkefnisins í öllum þátttökulöndunum boðað komu sína á lokaráðstefnuna.

Markmiðið með Biophilia menntaverkefninu er að hvetja börn til að kanna eigin sköpunargáfu og læra um tónlist, náttúru og vísindi með hjálp nútímatækni og þverfaglegrar kennslu. Upphaf þess má rekja til samvinnu Bjarkar Guðmundsdóttur, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands en verkefnið er nú á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Helstu niðurstöður verkefnisins sýna að Biophilia hefur haft jákvæð áhrif á kennsluaðferðir og greina má aukinn áhuga þeirra kennara sem tóku þátt í því að beita skapandi aðferðum í kennslu. Einnig kemur fram að í flestum  þátttökulöndunum merktu menn aukinn áhuga nemenda á tónlist og náttúruvísindum í kjölfar kennslunnar.

Á lokaráðstefnunni kynna fulltrúar þátttökulandanna helstu niðurstöður sínar. Attentus ráðgjafarfyrirtæki kynnir niðurstöður verkefnamats sem það vann fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskóli Íslands kynnir Norrænu þekkingarlestina og bandaríski framtíðarfræðingurinn og rithöfundurinn Bryan Alexander stendur fyrir vinnustofu um menntun framtíðar.

Frekari upplýsingar um Biophiliu menntaverkefnið: www.biophiliaeducational.org

Nánari upplýsingar veita:

Auður Rán Þorgeirsdóttir s. 615 2628
Arnfríður S. Valdimarsdóttir s. 695 5169

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira