Hoppa yfir valmynd
4. október 2016 Matvælaráðuneytið

Vistvæna framtíðarskipið RENSEA verðlaunað - ekki dropi af olíu í hafið!

Rensea umhverfisvænt skip - mynd
Í dag afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra forsvarsmönnum Rensea sigurverðlaunin í hugmyndasamkeppni um vistvænt skip. Sigurtillagan Rensea 3G er fjölnota vistvænt framtíðarskip með mikil segl sem fanga bæði vind- og sólarorku – og til vara er vél sem gengur fyrir umhverfisvænum orkugjöfum. Verðlaunaafhendingin fór fram á ráðstefnunni „Making Maritime Application Greener - 2016“ sem haldin var á Grand hótel. 

Hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling er eitt af þeim fyrirtækjum sem standa að baki Nordsea en síðustu tvö ár hefur fyrirtækið þróað umhverfisvænt kerfi í tvö af hvalaskoðunarskipum sínum. Auk Norðursiglingar stendur Íslensk Nýorka að sigurtillögunni auk fyrirtækja frá Noregi, Svíþjóð, Englandi og Sviss.

Hafið - öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, átti tillöguna sem hreppti annað sætið en það var hönnun á vistvænu 48 metra fiskiskipi sem gengur fyrir raforku frá rafgeymum og metanóli af endurnýjanlegum uppruna.

Að auki voru tvær aðrar tillögur kynntar á ráðstefnunni; Hugmynd frá Navis ehf. um vistvænt skip og hugmynd frá Skipasýn að fjölnota veiðiskipi.

Ein mikilvægasta áskorunin í sjávarútvegi og annarri haftengdri starfsemi er að gera skip og skipasiglingar umhverfisvænni – hafið tekur nefnilega ekki endalaust við!. Takmarkið með hugmyndasamkeppninni var að leita leiða til að draga úr umhverfisáhrifum skipaútgerðar og bárust alls 16 tillögur. Að baki keppninni stóðu Íslenski sjávarklasinn, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Íslensk nýorka. 

 

Sigríður Ragna Sverrisdóttir hjá Hafinu, Ragnheiður Elín og Agnes Árnadóttir hjá Rensea

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum