Velferðarráðuneytið

Mál nr. 86/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 86/2016

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. febrúar 2016, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. janúar 2016 um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. september 2015, sótti kærandi um uppbót vegna bifreiðakaupa. Með bréfi, dags. 20. nóvember 2015, sendi Tryggingastofnun kæranda bréf þar sem fram kom að afgreiðsla umsóknar kæranda væri í bið þar til mat frá Hjálpartækjamiðstöð lægi fyrir. Þá segir að í umsókn komi fram að kærandi aki ekki sjálfur og að ökumaður sé skráð B og að þau séu með lögheimili á sama stað. Við meðferð umsóknar hafi komið upplýsingar frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands um að verið væri að útbúa íbúð á C fyrir sjálfstæða búsetu kæranda. Óskaði Tryggingastofnun eftir upplýsingum frá kæranda um hvort hann byggi tímabundið á núverandi lögheimili eða hvort sú búseta væri varanleg, eða til lengri tíma.

Í bréfi, dags. 25. janúar 2016, kemur fram að Tryggingastofnun hafi ekki borist frekari upplýsingar frá kæranda og frá því að fyrra bréf hafi verið sent hafi lögheimili hans verið flutt af D til C. Var kæranda tilkynnt að umsókn hans um styrk vegna kaupa á bifreið væri synjað þar sem tilgreindur ökumaður, B, væri samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá ekki með sama lögheimili og hann og af gögnum málsins væri ljóst að hún væri ekki heimilismaður hans.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 15. mars 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. mars 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fram fari endurmat á umsókn hans og að hann hljóti fullan styrk til bifreiðakaupa.

Í kæru segir að kærandi sé lamaður frá hálsi og geti ekki keyrt sjálfur. Hann leigi íbúð þar sem hann búi einn en njóti NPA-þjónustu allan sólarhringinn. Þar sem lömunin nái líka yfir hendur sé honum gjörsamlega ómögulegt að keyra sjálfur. Því þurfi hann að treysta á starfsfólk sitt sem og foreldra sína til að sinna öllum akstri fyrir sig. Aðalástæða hinnar kærðu ákvörðunar virðist vera sú að ökumaður sé ekki með sama lögheimili og kærandi. Það sé einfaldlega ómögulegt að færa lögheimili starfsfólks kæranda og foreldra hans til hans. Frá því í X hafi kærandi verið hálfgerður fangi á eigin heimili. Sökum ófærðar hafi verið ómögulegt að fara út í göngutúra, ekki hægt að versla í matinn eða fara til læknis og hvað þá að stunda eitthvert félagslíf. Þetta sé engri manneskju boðlegt. Þar sem lungu kæranda séu mjög viðkvæm megi hann helst ekki vera lengur úti en fimm til tíu mínútur í einu í miklum kulda án þess að fá lungnabólgu. Lungnabólgu hafi hann fengið af þeim sökum í nokkur skipti í vetur og endað á spítala. Keyrsla í blóðprufur og í læknisheimsóknir hafi verið leystar með flutningi í sjúkrabíl sem hafi reynst kæranda ansi dýrt. E bjóði upp á einhverja keyrslu en það þurfi að sækja um hana með löngum fyrirvara og það sé stundum ekki nóg.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um styrk til bifreiðarkaupa, samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, með umsókn, dags. 17. september 2015. Í umsókninni komi fram að kærandi hafi ekki sjálfur gilt ökuskírteini. Ökumaður hafi verið skráð B. Á þeim tíma hafi kærandi verið með skráð lögheimili heima hjá ökumanni. Við meðferð umsóknarinnar hafi borist upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands um að búið væri að útbúa íbúð á C fyrir sjálfstæða búsetu kæranda og hann byggi þar. Tryggingastofnun hafi óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda en þann X 2015 hafi hann flutt lögheimili sitt á C. Tryggingastofnun hafi í kjölfarið tekið hina kærðu ákvörðun.

Styrkur vegna bifreiðakaupa sé veittur samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vanti líkamshluta.

Sett hafi verið reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009. Í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna bifreiðakaupa. Í 2. mgr. 4. gr. komi fram að eingöngu megi veita styrk vegna bifreiðakaupa þegar hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður og sé þetta atriði ítrekað í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Núgildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi hún tekið við af eldri reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega hafi verið tekin afstaða til hafi verið hversu ströng skilyrði ætti að setja um að uppbótar- eða styrkþeginn hefði sjálfur ökuréttindi. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefði ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum hafi umsækjandi sjálfur þurft að hafa ökuréttindi.

Í reglugerð nr. 170/2009 hafi skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það sé samkvæmt 4. gr. eða 5. gr. reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfi umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugi að heimilismaður hafi slík réttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. reglugerðarinnar eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.

Markmið breytinganna, sem gerðar voru árið 2009, hafi virst vera að samræma þau skilyrði sem gerð hafi verið til ökuréttinda, hvort sem um sé að ræða uppbót til reksturs bifreiðar, uppbót til kaupa á bifreið eða styrk vegna kaupa á bifreið.

Tryggingastofnun vilji benda á að ýmis félagsleg réttindi frá ríki og sveitarfélögum séu bundin við það að bótaþegi sé einn um heimilishald. Sem dæmi bendi stofnunin sérstaklega á að kærandi fái greidda heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á styrk til bifreiðakaupa. Rétt sé að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar almannatrygginga meðal annars í málum nr. 246/2009 og 247/2009 og einnig úrskurði í málum nr. 53/2010, 322/2012, 93/2014 og 288/2014, en þau mál hafi öll snúist um uppbót eða styrk til bifreiðakaupa. Einnig sé þetta í samræmi við ítrekaða túlkun á sambærilegum ákvæðum eldri reglugerðar nr. 752/2002.

Tryggingastofnun veki sérstaklega athygli á orðalagi í niðurstöðum í máli úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 53/2010. Þar segi nefndin meðal annars að skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður séu skýr og orki ekki tvímælis. Í tilviki kæranda sé þetta skilyrði ekki uppfyllt. Skráður ökumaður hafi skráð lögheimili á öðrum stað en kærandi og teljist hann því ekki heimilismaður í skilningi ákvæða reglugerðarinnar. Engar undantekningarheimildir sé að finna frá framangreindu skilyrði reglugerðarinnar.

Tryggingastofnun ítreki því niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. janúar 2016, um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. 

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir svo um styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum:

„Heimilt er að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 4. gr. og ekur sjálfur eða annar heimilismaður.“

Þá er fjallað nánar um skilyrði styrks í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem það er meðal annars gert að skilyrði að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi býr einn og getur ekki keyrt sjálfur. Kærandi greinir frá því að hann sé með NPA og þeir starfsmenn sem aðstoði hann aki bifreiðinni fyrir hann sem og foreldrar hans.

Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 fyrir veitingu styrks vegna bifreiðakaupa þar sem hann hefur hvorki ökuréttindi sjálfur né annar heimilismaður. Ekki er kveðið á um neinar undanþágur frá framangreindu skilyrði í reglugerðinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur skilyrðið málefnalegt, enda sé nauðsynlegt að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum reglugerðar nr. 170/2009 er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 25. janúar 2016 um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. janúar 2016 í máli A, um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn