Hoppa yfir valmynd
6. október 2016 Utanríkisráðuneytið

Heildstæð nálgun í öryggismálum

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra setti í dag ráðstefnu um brottför varnarliðsins og þróun varnarmála í Þjóðminjasafninu, en ráðstefnan er sú fyrsta af þremur sem haldin er í tilefni þess að 10 ár eru nú liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins frá Miðnesheiði.

Í ræðu sinni leit utanríkisráðherra yfir farinn veg síðasta áratuginn og reifaði þróun öryggismála og varnarsamstarfsins við Bandaríkin frá því varnarliðið fór af landi brott árið 2006. „Margt hefur breyst á umliðnum 10 árum. Umhverfi öryggismála hefur breyst og stefna okkar og fyrirkomulag varnarmála hefur tekið mið af þeim breytingum. Ísland tekur nú aukna ábyrgð á eigin vörnum sem er eðlilegt og á áratug hefur okkur orðið vel ágengt. Ógnir og áhættuþættir samtímans kalla á heildstæða nálgun í öryggismálum og nýsamþykkt þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland markar stefnuna og hina pólitísku sátt. Alþjóðlegt samstarf, ekki síst innan Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða við Bandaríkin eru meðal meginstoða í þjóðaröryggisstefnunni. Varnarsamstarf okkar við Bandaríkin hefur breyst frá því varnarliðið fór frá Íslandi. Í dag einkennist samstarfið af meiri gagnkvæmni og samvinnu - og er áfram mjög þýðingarmikið, sagði Lilja meðal í ræðu sinni.

Varðberg, Nexus og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa að ráðstefnuröðinni og meðal annarra ræðumanna voru Robert G. Loftis, prófessor í alþjóðasamskiptum við háskólann í Boston sem fór fyrir bandarísku samninganefndinni í aðdraganda brottfarar varnarliðins, og Ojars Eriks Kalnins, formaður utanríkismálanefndar þings Lettlands. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu voru ennfremur meðal þátttakenda, en Björn Bjarnason, formaður Varðbergs, stýrði pallborðsumræðum.

Ræða utanríkisráðherra á ráðstefnu Varðbergs .

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum