Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 13/2016. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. september 2016

í máli nr. 13/2016:

Stál og suða ehf.

gegn

Orku náttúrunnar ohf. og

Vélsmiðjunni Altak ehf.

Með kæru 26. ágúst 2016 kærir Stál og suða ehf. útboð Orku náttúrunnar ehf. (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) nr. ONVK-2016-18 auðkennt „Stálsmíði og Lagnir, Skiljuvatnslögn á Skarðsmýrarfjalli“. Kærandi krefst þess að varnaraðila verði „gert skylt að að ganga til samningsgerðar“ við kæranda. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun varnaraðila „um að tilboð kæranda sé ógilt sé ógild.“ Þá er þess krafist að varnaraðila „sé óheimilt að ganga til samningsgerðar við Vélsmiðjuna Altak ehf.“ Jafnframt er gerð krafa um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir og að varnaraðila verði gert „óheimilt að ganga til samningsgerðar við annan aðila en kæranda“ vegna hins kærða útboðs, auk þess sem þess er krafist að samningurinn verði lýstur óvirkur hafi þegar verið gengið til samninga. Þá er krafist málskostnaðar.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði varnaraðila sem fram fór í júlí sl. þar sem óskað var eftir tilboðum í uppsetningu á forskilju á nánar tilteknum safnæðastofni á Skarðsmýrarfjalli og tengingu við tvær borholur, en bjóðendur skyldu annast alla jarðvinnu, pípulagnir, stálsmíði, tengingar, prófanir og annað það sem þyrfti til að ljúka verkinu að fullu. Í útboðsgögnum voru gerðar ákveðnar kröfur til fag- og tækniþekkingar starfsmanna bjóðenda, en m.a. var gert ráð fyrir að bjóðendur skyldu hafa reynslu af sambærilegum verkum í lagningu foreinangraðra lagna í jörðu og að þeir skyldu skila inn lista yfir fyrri verk með tilboðum sínum. Jafnframt var kveðið á um að suðumenn skyldu hafa hæfnisvottorð samkvæmt staðli ISO 9606-1 og var kveðið á um að staðfestum hæfnisvottorðum vegna suðuréttinda starfsmanna skyldi skilað með tilboði, auk þess sem kveðið var á um skil á ýmsum öðrum gögnum. Þrjú tilboð bárust í útboðinu, þ. á m. frá kæranda, sem var lægstbjóðandi, og Vélsmiðjunni Altak ehf., sem átti næst lægsta tilboðið. Fyrir liggur að kærandi og varnaraðili hittust á fundi 12. ágúst sl., en aðila greinir á um hvort varnaraðili hafi tekið tilboði kæranda á þeim fundi. Í kjölfarið virðist kærandi hafa verið upplýstur um það munnlega að ýmis fylgigögn hafi vantað með tilboði hans sem áttu að staðfesta hæfi hans til að taka að sér verkið. Kærandi mótmælti þessari afstöðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Með bréfi dags. 22. ágúst sl. tilkynnti varnaraðili svo formlega að hann hefði ákveðið að taka tilboði Vélsmiðjunnar Altaks ehf., sem hefði átt lægsta gilda tilboðið í útboðinu.

Kröfur kærenda byggja í meginatriðum á því að þegar hafi verið kominn á samningur á milli kæranda og varnaraðila þar sem varnaraðili hafi tekið tilboði kæranda á fundi aðila 12. ágúst 2016. Þá hafi kærandi verið hæfur til að taka þátt í útboðinu. Hann hafi verið metinn hæfur verktaki samkvæmt verktakamati varnaraðila, auk þess sem varnaraðili hafi kallað eftir frekari gögnum um hæfi kæranda og kærandi skilað inn gögnum sem staðfestu hæfi hans. Þá hafi kærandi haft gögn undir höndum við opnun tilboða um að kærandi hefði unnið mörg sambærileg verk fyrir varnaraðila. Ekki hafi verið skylda til að afhenda tiltekin gögn og önnur gögn hafi verið þýðingarlaus. Þá hafi útboðsgögn heldur ekki gert neina kröfu um hæfi auk þess sem kærandi hafi verið í góðri trú um að tilboð hans uppfyllti kröfur útboðsins.

 Niðurstaða

Varnaraðili, Orka náttúrunnar ohf., starfar við framleiðslu og sölu á raforku til almennings. Verður því að miða við að varnaraðili teljist til veitustofnunar sem falli undir reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, sem innleiddi tilskipun Evrópusambandsins  nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“), sbr. 2. gr. og 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að með hinu kærða útboði hafi varnaraðili stefnt að gerð verksamnings í skilningi b-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Viðmiðunarfjárhæð vegna skyldu til útboðs á EES-svæðinu samkvæmt veitutilskipuninni nemur nú 805.486.000 krónum þegar um er að ræða verksamninga, sbr. reglugerð nr. 220/2016 um breytingu á reglugerð nr. 755/2007. Á opnunarfundi 11. ágúst 2016 var upplýst að kostnaðaráætlun fyrir verkið næmi rúmri 81 milljón króna og að tvö lægstu tilboðin sem bárust hafi numið rúmum 122 milljónum króna, en þriðja tilboðið um 157 milljónum króna. Samkvæmt þessu er ljóst að framangreind innkaup náðu ekki viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu á EES-svæðinu og voru því ekki útboðsskyld í samkvæmt ákvæðum veitutilskipunarinnar. Þá er ekki að finna í útboðsgögnum ótvíræða yfirlýsingu kaupanda þess efnis að um útboðið fari allt að einu eftir fyrrnefndri reglugerð nr. 755/2007.

Samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögum um opinber innkaup og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal þeim ákvæðum veitutilskipunarinnar. Þar sem hin kærðu innkaup féllu samkvæmt framansögðu ekki undir reglugerð nr. 755/2007 og ákvæði veitutilskipunarinnar fellur ágreiningur aðila ekki undir valdsvið kærunefndar útboðsmála. Eru því ekki efni til að líta svo á að komist hafi á sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar með kæru í máli þessu, sbr. 94. gr. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013. Af sömu ástæðu er ekki unnt að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðarinnar um stundarsakir, sbr. 96. gr. sömu laga, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Stáls og suðu ehf., um að útboð varnaraðila, Orku náttúrunnar ehf. nr. ONVK-2016-18 auðkennt „Stálsmíði og Lagnir, Skiljuvatnslögn á Skarðsmýrarfjalli“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                                                                                     Reykjavík, 20. september 2016

                                                                                     Skúli Magnússon

                                                                                     Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn