Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Fyrstu forritanlegu smátölvurnar afhentar nemendum í dag

Nemendur úr Kópavogs- og Háteigsskóla tóku við fyrstu Microbit forritanlegu smátölvunum þegar Illugi Gunnarsson mennta- og menningamálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, afhentu nemendunum tölvurnar í dag í Stúdíói A hjá Ríkisútvarpinu.
Verkefnið sem er stærsta einstaka aðgerðin sem ráðist hefur verið í til að efla forritunarkennslu á Íslandi er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV, Samtaka iðnaðarins og fyrirtækja sem samtökunum tengjast.

Við þetta sama tækifæri voru forritunarleikarnir, Kóðinn 1,0, settir. Vefsíða verkefnisins http://krakkaruv.is/kodinn/um_kodann var einnig opnuð en þar má finna hagnýtar upplýsingar um tölvuna og verkefnið. Síðan gagnast foreldrum, nemendum og kennurum í leit að upplýsingum og verkefnum fyrir Microbit. 

 Nú þegar hefur verið sótt um tölvur fyrir 80% grunnskólanemenda í 6. og 7. bekk á öllu landinu en alls eru það tæplega 9.000 nemendur sem hafa möguleika á að fá tölvur.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að viðtökur skólasamfélagsins séu vonum framar. „Árum saman hefur verið rætt um nauðsyn þess að íslensk ungmenni öðlist færni í forritun. Þannig geti þau meðal annars betur brugðist við þeim gríðarlegu samfélagsbreytingum sem tæknibyltingin hefur í för með sér, en ljóst er að umtalsverður hluti þeirra starfa sem við nú þekkjum munu hverfa á næstu árum og áratugum og ný störf koma í staðinn sem gera nýjar og breyttar kröfur til þeirra sem þau vinna. Microbit verkefnið er stórt skref í þá átt að kenna íslenskum ungmennum forritun og mikilvægi þessa verkefnis má sjá af því hversu víðtækt samstarf hefur náðst á millli atvinnulífsins og menntamálayfirvalda um fjármögnun og útfærslu þess. Ég vil þakka kennurum og skólastjórum fyrir viðtökurnar en sérstaklega vil ég hvetja foreldra til að styðja við krakkana sína í þessu verkefni, hvetja þau til dáða og nýta þetta tækifæri til að skapa þeim góða og spennandi framtíð.“

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segir verkefnið vera sett af stað til að efla vitund, skilning og áhuga ungra nemenda á forritun. „Það er mikilvægt að vekja nemendur til umhugsunar um mikilvægi forritunar í daglegu lífi og kveikja áhuga þeirra á iðn- og tæknimenntun almennt. Við vitum að forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur einnig á hugmyndaauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun. Allt eru þetta eiginleikar sem eru þess virði að rækta og efla hjá námsfólki nútímans til að börnin okkar verði sem best undir það búin að takast á við verkefni framtíðarinnar en þau verkefni eru mörg hver óþekkt núna. Það hefur verið ánægjulegt að finna mikla jákvæðni gagnvart verkefninu og þá ekki einungis frá nemendum og foreldrum heldur einnig frá menntasamfélaginu, fyrirtækjum og aðilum sem starfa við nýsköpun og þróun. Það er ekki hægt að fá betri staðfestingu á mikilvægi verkefnisins.“

 Microbit er forritanleg tölva sem er hönnuð af BBC og fjölda samstarfsaðila til að vekja áhuga barna á forritun og kenna þeim forritun. Microbit er einskonar byrjendaútgáfa af Raspberry Pi eða Arduino tölvunum en verkefnið var upphaflega sett í gang í Bretlandi þar sem mikill skortur er á kennurum sem geta kennt forritun og því vantaði að fleiri nemendur skiluðu sér inn í heim tækni og forritunar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira