Hoppa yfir valmynd
18. október 2016 Innviðaráðuneytið

Rannsakendur flugslysa á ráðstefnu í Reykjavík

Sérfræðingar frá yfir 40 ríkjum fjalla um flugslysarannsóknir á ráðstefnu í Reykjavík. - mynd
Nú stendur yfir í Reykjavík ráðstefna International Society of Air Safety Investigators, ISASI, sem eru samtök rannsóknarnefnda flugslysa en samtökin eru með aðalasetur í Bandaríkjunum og svæðisskrifstofur víða um heim. Rannsóknarnefnd samgönguslysa á Íslandi er gestgjafi ráðstefnunnar og setti Þorkell Ágústsson, rannnsóknarstjóri flugsviðs og rekstrarstjóri nefndarinnar, ráðstefnuna í morgun.

Á ráðstefnunni, sem stendur út fimmtudag, eru flutt fjölmörg erindi m.a. um rannsóknir einstakra landa á flugatvikum og slysum. Alls sækja hana yfir 300 manns, fulltrúar rannsóknarnefnda flugslysa, flugvélaframleiðenda, stjórnvalda, flugfélaga, stéttarfélaga flugliða, Alþjóða flugmálastofnunarinnar, ICAO, og Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA.

Auk ávarps Þorkels Ágústssonar við setningarahöfn í morgun fluttu ávarp Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, Geirþrúður Alfreðsdóttir, formaður rannsóknarnefndar samgönguslysa og formaður ISASI, Frank Del Gandio.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar.

Í ávarpi sínu fjallaði Ragnhildur Hjaltadóttir um þema ráðstefnunnar, Sérhver hlekkur er mikilvægur og sagði það góða lýsingu á verkefnum rannsakenda flugslysa. Við rannsókn á flugatviki eða slysi væru skoðaðir fjölmargir samverkandi þættir í því skyni að finna út hvort eða hvernig þeir hefðu átt þátt í slysi. Því væri grundvallaratriði að tengja alla þessa þætti saman. Þakkaði hún forráðamönnum ISASI einnig fyrir að halda ráðstefnuna að þessu sinni á Íslandi og minnti á hversu Íslendingar væru háðir flugsamgöngum.

Meðal sérfræðinga sem fluttu erindi í dag var Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði hjá RNSA, sem fjallaði um rannsókn nefndarinnar á slysi á Sukhoi Superjet 100 flugvél sem magalenti á Keflavíkurflugvelli sumarið 2013 þegar hún var í flugprófunum á vegum rússneska flugvélaframleiðandans Sukhoi. Einnig verður fjallað um rannsókn á flugvél Malaysia Airlines, flugi MH17, sem fórst við landamæri Rússlands og Úkraínu sumarið 2014 og rannsókn á flugi þýska flugfélagsins German Wings sem fórst í frönsku Ölpunum í mars 2015.

Þá verður fjallað um ýmis sértæk efni eins og notkun dróna til að búa til þrívíddarmyndir af slysavettvangi til að styðja við rannsóknir, um öryggi í farþegarými, hvernig almennt er hægt að auka öryggi í flugi með margs konar aðgerðum, hvernig rannsóknargögn eru varðveitt og gætt að trúnaði við meðferð þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum