Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ríkisstjórnin styður kynningu á kvikmyndinni Þrestir vegna þátttöku hennar í forvali til Óskarsverðlauna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að veita 6,5 m.kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar til kynningar á kvikmyndinni Þrestir vegna þátttöku hennar í forvali til Óskarsverðlauna.

Kvikmyndin Þrestir , sem var frumsýnd í september 2015, hefur verið valin fyrir Íslands hönd í forvali til Óskarsverðlauna árið 2017. Kvikmyndin hefur fengið mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda og unnið til margháttaðra verðlauna m.a. hinna virtu San Sebastian verðlauna. Hefur kvikmyndin í samanburði við þær kvikmyndir sem keppa um Óskarsverðlaunin unnið til flestra alþjóðlegra verðlauna, auk þess sem leikstjóri myndarinnar Rúnar Rúnarsson hefur áður verið tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Aðstandendur kvikmyndarinnar Þrestir telja að hér sé um einstakt tækifæri til að koma landi og þjóð að í kynningarefni sem sjaldan stendur til boða. Þeir telja einnig að kvikmyndin eigi góða möguleika en þeir verði ekki nýttir nema að kynningarstarfinu sé vel sinnt. Um kynningarstarf mun Joshua Jason sjá um en hann er vel þekktur innan kvikmyndageirans, m.a. annars fyrir kynningarstarf fyrir „The Imitation Game“ sem vann til Óskarsverðlauna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn